Domino‘s Pizza gerir mikilvægar breytingar í þágu umhverfismála

Domino‘s Pizza á Íslandi hefur ákveðið að gera mikilvægar breytingar …
Domino‘s Pizza á Íslandi hefur ákveðið að gera mikilvægar breytingar á umhverfisstefnu fyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend

Domino‘s Pizza á Íslandi hefur ákveðið að gera mikilvægar breytingar á umhverfisstefnu fyrirtækisins og fara af fullum krafi í átak í minnkun plastnotkunar í verslunum sínum samhliða því að kolefnisjafna rekstur sinn.

Samfélagsleg ábyrgð er mikilvægur þáttur í rekstri Domino‘s á Íslandi og er fyrirtækið stolt af því að með kolefnisjöfnun á rekstri sínum sé Domino‘s leiðandi á meðal fyrirtækja á skyndibitamarkaði á Íslandi í umhverfismálum, að því er segir í tilkynningu.

Hætta með plastpoka, rör og plastlok á glös

Frá og með 1. júlí munu verslanir Domino‘s á Íslandi hætta alfarið að bjóða viðskiptavinum sínum plastpoka, rör og plastlok á glös.

Í staðinn fyrir plastpoka verður viðskiptavinum boðið að kaupa pappírspoka á 30 kr. þar sem allur ágóði sölunnar rennur í nýstofnaðan Umhverfissjóð Domino‘s sem mun á 6 mánaða fresti úthluta söfnuðum fjármunum til félaga sem starfa í þágu umhverfisverndar á Íslandi, að því er fyrirtækið greinir frá.

„Að sama skapi hvetur Domino‘s viðskiptavini sem hyggjast nota poka til að koma með fjölnota poka í verslanir fyrirtækisins. Í samstarfi við TreememberMe og Skógræktina mun Domino‘s hefja þann mikilvæga feril að kolefnisjafna rekstur sinn með plöntun skógar.

Kolefnisjafna akstur fyrirtækisins

Þann 1. júlí ætlar starfsfólk Domino‘s að taka höndum saman og planta fyrstu trjánum og þannig hefja vegferðina að áframhaldandi umhverfisvænni rekstri. Með þessu hyggst Domino‘s kolefnisjafna akstur fyrirtækjabíla, flugferðir starfsfólks, losun úrgangs og rafmagnsnotkun fyrirtækisins. Að sama skapi mun fyrirtækið taka alla rekstrarþætti sína til róttækrar skoðunar með það í huga að finna umhverfisvænni kosti þar sem þeir bjóðast,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram, að Domino‘s ætli sér að stíga frekari skref í umhverfismálum á næstu mánuðum og muni jafnframt gera þá kröfu til birgja sinna að umhverfisvænar lausnir verði notaðar þar sem þeim verður við komið. Vonast Domino‘s til þess að þetta framtak hafi keðjuverkandi áhrif innan markaðsins en hafi fyrst og fremst hafa jákvæð áhrif á umhverfið að því fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is