Krónan gefur plasti framhaldslíf með nýju samstarfi við Plastplan

Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar (t.h.) og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir …
Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar (t.h.) og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir markaðsstjóri Krónunnar ásamt Brynjólfi Stefánssyni (t.h.) og Birni Steinari Blumenstein frá Plastplani. mbl.is/Hörður Ásbjörnsson

Krónan hefur samið við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Plastplan um endurvinnslu á plasti sem fellur til í verslun hennar á Granda og gefur því framhaldslíf með því að vinna úr plastinu nytjahluti sem nýttir verða í starfsemi Krónunnar. Samstarfinu er þannig háttað til að byrja með að Plastplan sækir plast sem fellur til í verslun Krónunnar og vinnur úr því vörur fyrir starfsemi verslunarinnar. Plastplan býr yfir tækjakosti og þekkingu til að taka á móti öllum flokkum plasts sem hægt er að endurvinna, plastið er kurlað niður og eru sérhannaðar vélar notaðar til að búa til nýja nytjahluti úr aflöguplastinu.

Hringrás plasts hjá Krónunni

Samstarfið hefst á því að farið verður í vöruþróun og hönnun með starfsmönnum Krónunnar, byggt á vettvangsrannsóknum og þarfagreiningu. Útkoma hönnunarferlisins eru nytjahlutir sem Krónan getur nýtt í rekstri sínum og væri annars að kaupa annars staðar frá. Þessir hlutir geta verið margvíslegir og eru ýmsar hugmyndir þegar á lofti, svo sem þiljur sem viðskiptavinir setja á bretti til að greina sínar vörur frá þeim sem er á undan þeim, ýmis merkingarspjöld eða litlar körfur undir grænmetið. Sérstaða þessa samstarfs er að með því fæst hringrás plastúrgangs Krónunnar að því að fram kemur í fréttatilkynningu.

„Við hjá Plastplan erum mjög ánægð með að hefja samstarf við Krónuna en það er yfirlýst stefna okkar að vinna einungis með fyrirtækjum sem eru leiðandi í samfélags- og umhverfismálum. Við erum virkilega spennt að sjá hvaða vörur við getum þróað saman og náð fram raunverulegri endurvinnslu á því plasti sem fellur til í rekstri Krónunnar” segir Björn Steinar, annar eiganda Plastplans.

„Við erum afar ánægð með að hefja þetta samstarf því þetta er einstakt tækifæri til að ná fram hringrás plastúrgangs, að sjá með eigin augum plastið öðlast nýtt líf og nýtast beint aftur inn í rekstur Krónunnar. Við höfum gert ýmislegt til að draga úr plastúrgangi hjá Krónunni en verkefnið er viðamikið og því erum við sérstaklega stolt af því að hefja samstarf um plastendurnýtingu við innlendan aðila. Með því að endurnýta plastið hérlendis minnkum við einnig kolefnisfótsporið og þar með stígum við enn eitt skrefið í að gera rekstur Krónunnar umhverfisvænni,” segir Gréta María Grétarsdóttir hjá Krónunni.

mbl.is