Skyrið sem beðið hefur verið eftir

mbl.is/MS

Ísey skyr kynnir til leiks tvær nýjar bragðtegundir án viðbætts sykurs og sætuefna en um er að ræða fyrstu íslensku mjólkurvöruna sem er einungis bragðbætt með ávöxtum. Nýja vörulínan kallast Ísey ÁN og mun til að byrja með samanstanda af tveimur bragðtegundum, annars vegar suðrænum ávöxtum og hins vegar perum og bönunum.

„Ísey ÁN er afrakstur langs og strangs vöruþróunarferlis innan MS, þar sem áhersla var lögð á að koma með vöru sem væri án alls sykurs og sætuefna, en jafnframt bragðgóða. Við teljum að það hafi tekist hér og erum mjög ánægð með árangurinn. Þessar vörur sem við getum nú boðið viðskiptavinum okkar upp á eru meðal þeirra fyrstu sinnar tegundar í heiminum,“ segir Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri Mjólkursamsölunnar. „Nýja skyrið er milt á bragðið þar sem sætan kemur eingöngu úr ávöxtunum sjálfum og 2% fituinnihald gerir skyrið mýkra en ella. Skyrið er jafnframt án laktósa, þar sem allur laktósi (mjólkursykur) hefur verið klofinn og ætti það því að henta öllum sem hafa laktósaóþol,“ bætir Björn við.

Mjólkurvörur eru ríkar af próteini, kalki, vítamínum og steinefnum og þrátt fyrir að sumar sýrðar mjólkurvörur innihaldi viðbættan sykur eru þær samt sem áður ríkar af þessum hollustuefnum. MS hefur unnið markvisst að því frá árinu 2004 að minnka hlutfall viðbætts sykurs í afurðum sínum og í dag eru um 85% af öllum vörum fyrirtækisins án viðbætts sykurs. „Samkvæmt rannsóknum sem Embætti landslæknis hefur gert á neysluvenjum Íslendinga kemur 6% af þeim viðbætta sykri sem landsmenn neyta úr mjólkurvörum en við viljum að neytendur hafi val um hreinar, bragðbættar og kolvetnaskertar sýrðar mjólkurafurðir. Að því sögðu mun MS að sjálfsögðu vinna áfram að því næstu árin að auka gagnsæi um hollustu og innihald mjólkurvara og styðja við heilbrigt líferni neytenda,“ segir Björn að lokum.

Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri Mjólkursamsölunnar.
Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri Mjólkursamsölunnar. mbl.is/MS
mbl.is/MS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert