Ostafylltur parmaskinkuvafinn lax

mbl.is/Björn Árnason

Þessi uppskrift er hreinræktuð hólí-mólí uppskrift (sem eru uppskriftir sem yfirleitt valda yfirliði, uppþoti eða almennri alsælu). Það er engin önnur en Hrefna Sætran sem á heiðurinn að þessari snilld.

Ostafylltur parmaskinkuvafinn lax

Fyrir 4

  • 800 g laxaflak
  • 4 stk. baby bell-ostur (má vera e-r annar harður ostur skorinn í svipaða stærð)
  • 8 sneiðar parmaskinka
  • Salt og pipar

Aðferð: Roðflettið og beinhreinsið laxaflakið. Skerið laxinn í 4 steikur, skerið vasa í hverja steik og kryddið laxinn að utan með salti og pipar. Takið utan af ostinum og stingið honum inn í vasann og vefjið tveimur parmaskinkusneiðum utan um laxinn. Grillið svo á rjúkandi heitu grilli í 4 mínútur á hvorri hlið.

Grillað ferskjusalat

Fyrir 4
  • 4 stk. ferskjur
  • 2 stórir rauðlaukar
  • 1 askja litlir tómatar
  • 1 dós litlar mozzarella-kúlur
  • Basilikulauf
  • Salt og pipar
  • Ólífuolía

Aðferð: Skerið ferskjurnar í báta ásamt rauðlauknum. Þræðið tómatana á spjót. Penslið með olíu og kryddið með salti og pipar. Grillið á heitu grilli þar til fallegar grillrendur myndast. Setjið á disk sem þið ætlið að bera salatið fram í og raðið mozzarella og basil ofan á. Hellið smá ólífuolíu yfir í lokin.

mbl.is/Björn Árnason

Rabarbaradesert

Fyrir 4
  • 3 stönglar rabarbari
  • 200 g blönduð frosin ber
  • 150 g flórsykur
  • 180 g hafrar
  • 120 g möndlumjöl
  • 120 g púðursykur
  • 1 msk. kanill
  • 1 tsk. kardimommur
  • 120 g smjör

Aðferð: Skerið rabarbarastönglana í bita og setjið í skál ásamt berjum og flórsykri. Setjið allt þurrefnið í skál og myljið svo smjörið saman við með höndunum og blandið vel saman. Setjið ávextina í eldfast mót (má líka móta skál úr tvöföldum álpappír) Setjið svo hafrablönduna yfir ávextina og grillið þar til þetta byrjar að bubbla. Nauðsynlegt að bera fram ís eða gríska jógúrt með þessum desert.

Hrefna Sætran.
Hrefna Sætran.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert