Einfaldur og æðislegur karrýfiskur

mbl.is/Hanna

Karrýfiskur er alltaf klassísk og til eru þau börn sem alla jafna fúlsa við venjulegum fiski en elska karrýfiskinn sinn. Þessi réttur kemur úr smiðju Hönnu sem eldar hann í leirpottinum sínum sem hún er afar hrifin af enda frekar smart. Við hin sem ekki eigum leirpott getum annaðhvort notað steypujárnspott eða eldfast mót.

„Ég hef gaman af því að að prófa mig áfram með rétti í leirpottunum mínum og er þetta ein tilraunin. Rétturinn er alveg afbragðsgóður og ekki spillir fyrir að hann er einfaldur og fljótlegur. Með þvi að elda fiskinn í ofninum með lokinu á verður hann safaríkur og góður. Þessi réttur er góður með hrísgrjónum eða kartöflum og svo að sjálfsögðu með brakandi fersku salati,“ segir Hanna um réttinn.

Einfaldur og æðislegur karrýfiskur

Leirpottur

Leirpottur, sem rúmar rúmlega 1 lítra eða meira, hentar vel fyrir þetta magn.  Fyrir minni potta er bara að helminga uppskriftina.

Hráefni

 • 500 – 600 g beinlaus og roðlaus fiskur – skorinn í stóra bita
 • 1 msk. karrý
 • 2 dl rjómi eða matreiðslurjómi
 • 1 paprika – skorin í litla bita (má sleppa)
 • 3 gulrætur – skornar í þunnar sneiðar
 • ½ – 1 laukur – skorinn þversum – þannig að sneiðarnar verða hringir
 • ½ dl rjómaostur
 • Salt og pipar

Verklýsing

 1. Ofninn hitaður í 180°C.
 2. Fiskbitum raðað í pottinn.
 3. Olía hituð á pönnu (gott að setja smá smjörklípu líka) – gulrætur steiktar.
 4. Paprika sett á pönnuna og steikt áfram í nokkrar mínútur.  Að lokum er laukhringjum bætt við og steikt örstutt  – allt sett ofan á fiskinn.
 5. Panna hituð og olíu hellt á. Karrý sett á pönnuna og látið aðeins hitna – rjóma bætt við og síðan rjómaosti –  blandað saman og hellt yfir fiskinn.
 6. Saltað og piprað og lokið sett yfir.
 7. Potturinn settur í ofninn og eldað í 15 mínútur.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is/Hanna
mbl.is