Mexíkóskt kjúklingasalat í tortillaskál

mbl.is/Eva Laufey

Það er þriðjudagur sem þýðir að það er fullkominn dagur til þess að fá sér mexíkóskan mat. Hér er það engin önnur en Eva Laufey sem býður upp á mexíkóskt salat í tortillaskál sem er alveg upp á tíu!

mbl.is/Eva Laufey

Mexíkóskt salat í tortillaskál

 • Salatskálar
 • Tortillahveitikökur
 • Ólífuolía

Aðferð: Setjið smá ólífuolíu í pott, skál eða form sem þolir að fara inn í ofn. Setjið eina tortillahveitiköku í formið og mótið skál. Bakið við 180°C í 10–15 mínútur eða þar til kakan er orðin stökk.

Lárperusósa:

 • 1 lárpera
 • 2 hvítlauksrif
 • 4–5 msk. grísk jógúrt
 • Safinn úr ½ límónu
 • Skvetta af hunangi
 • Salt og pipar

Aðferð: Setjið allt í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota, smakkið ykkur til með salti og pipar. Best er að geyma sósuna í ísskápnum í smá stund áður en þið berið hana fram.

Salatið:

 • 800 g kjúklingakjöt, helst kjúklingalæri með skinni
 • Salt og pipar
 • ½ tsk. kumminkrydd
 • 1 tsk. Bezt á allt-krydd
 • 1 askja kirsuberjatómatar
 • 1 laukur
 • Handfylli kóríander
 • 1 mangó
 • Ólífuolía
 • Límónusafi
 • Gott kál, t.d. lambhagasalat og klettasalat
 • Fetaostkubbur

Aðferð: Steikið kjúklinginn upp úr olíu, kryddið skinnhliðina með salti og steikið á þeirri hlið í tíu mínútur. Kryddið hina hliðina með salti, pipar, kumminkryddi og Bezt á allt-kryddblöndunni. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er gott að setja hann inn í heitan ofn á meðan salatið er útbúið. Skerið allt grænmetið fremur smátt, blandið salsanu vel saman og bætið saman við lambhagasalatið og klettasalatið í lokin. Fyllið hverja tortillaskál með salati og skerið kjúklinginn í bita og raðið yfir. Setjið væna skeið af lárperusósu yfir og myljið fetaost rétt í lokin yfir allt salatið.

mbl.is/Eva Laufey
mbl.is