Viðskiptavinir svara kalli Krónunnar

Hátt í tvö hundruð ábendingar um hvað megi betur fara í umhverfismálum Krónunnar hafa borist keðjunni síðan kallað var eftir auknu samtali við viðskiptavini um umhverfismál og hvað megi betur fara í þeim efnum. Var það gert eftir að Krónan sendi frá sér upplýsingar um stöðu umhverfismála í verslunum sínum og þann árangur sem náðst hefði í ýmsu tengdu umhverfissmálum á síðustu misserum. Krónan leggur sig fram um að koma ábendingum í farveg innan húss hjá sér en eins og gefur að skilja er ekki hægt að koma öllu strax í verk sem berst. Krónan hlaut nýverið Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Daglega berast Krónunni ábendingar um hvað megi betur fara í umhverfismálum í verslunum keðjunnar. Tillögur viðskiptavina eru af ýmsum toga, allt frá því að óska eftir að Krónan bjóði umhverfisvænni hreinlætisvörur, ákall eftir hjólastöndum við allar verslanir, fjölgun afpökkunarborða og að Krónan legði sérstaka áherslu vörur sem hefðu minnsta kolefnisfótsporið.

Krónan skoðar allar ábendingar en verkefnin sem viðskiptavinir listuðu upp eru misstór. Mikill meirihluti óskar eftir umbúðalausum vörum eða 29% og er það verkefni sem Krónan vinnur stöðugt að en til að af því geti orðið þarf aðkomu margra. Af þeim ábendingum sem borist hafa hafa þó nokkuð margar þegar náð í gegn, skrjáfpokar hafa verið teknir úr umferð, hægt er að sleppa kvittun í sjálfsafgreiðslu og einnig hefur Krónan tekið sig til og gefið matvæli sem eru á síðasta séns auk þess að selja á mikið niðursettu verði. Ýmsar aðrar ábendingar bárust og eru flokkaðar undir „annað“, það var til dæmis óskað eftir hjólastöndum við verslanir sem Krónan brást við og er nú að finna hjólastanda við allar verslanir.

Krónan tók nýverið upp samstarf við fyrirtækið Plastplan, eitt fárra íslenskra fyrirtækja sem sérhæfir sig í endurvinnslu plasts sem breytt er í nytjahluti sem munu nýtast aftur beint inn í rekstur Krónunnar með einhverjum hætti.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að fá allar þessar góðu ábendingar frá viðskiptavinum í framhaldi af samantekt okkar um árangur okkar í umhverfismálum. Við trúum því að með öflugu samstarf við birgja og viðskiptavini okkar sé hægt að ná miklum árangri í umhverfismálum. Því viljum við eiga í stöðugu samtali við viðskiptavini okkar en jafnframt þykir okkur mikilvægt að þeir viti að við tökum ábendingum þeirra alvarlega og að við ætlum okkur að halda áfram að bæta okkur í umhverfismálum. Það er þess vegna sem við birtum þennan lista og viðbrögð okkar við ábendingum viðskiptavina. Loforð okkar til viðskiptavina er að setja umhverfismál í forgang og við viljum sýna það í verki “ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert