Tékklistinn ef þú ert í eldhúshugleiðingum

Hvernig lítur draumaeldhúsið út? Það er að mörgu að hyggja …
Hvernig lítur draumaeldhúsið út? Það er að mörgu að hyggja þegar setja á saman nýtt eldhús. mbl.is/© iStock

Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú ætlar þér að skipta út eldhúsinu eða langar að breyta til. T.d. hvar er vaskurinn staðsettur miðað við ísskápinn og eldavélina – og ekki síður uppþvottavélina.

Of mikið af hlutum í opnum hillum
Opnar hillur eru frábærar  til að leyfa fallegu leirtaui að njóta sín og getur gefið eldhúsinu persónulegan brag. En það getur líka orðið algjört klúður! Allt í einu eru opnu hillurnar fullar af óspennandi dóti, plastboxum eða öðru eins sem á frekar heima inn í lokuðum skáp. Hugsaðu frá byrjun hvort þú sért týpan sem ert með góða yfirsýn hvernig opnar hillur eigi að líta út eða hvort að þú sért meira „skápa-týpan“.

Borðplatan
Viðarplötur eru hlýlegar og fallegar að sjá. En ef þú hugsar ekki vel um hana, getur hún fljótt orðið blettótt með hringlaga „merkjum“ eftir kaffibollann eða álíka. Vandaðu valið og miðaðu út frá því hvernig þú ert og hvernig þú vinnur í eldhúsinu. 

Uppþvottavélin langt frá vaskinum
Stundum höfum við enga kosta völ þegar kemur að því að staðsetja uppþvottavélina. En ef þú getur, skaltu koma henni fyrir eins nálægt vaskinum og hægt er. Það mun létta undir alla vinnuna þegar þú ert að ganga frá eftir matinn.

Veggplássið
Þegar þú hefur sett athyglina á borðplötuna er gott að huga að veggnum fyrir ofan eldavélina. Matur mun slettast á vegginn sama hversu mikið þú vandar þig yfir pottunum. Viltu hafa stálplötu eða flísar, jafnvel plexígler? Nú ef þú vilt bara mála vegginn skaltu mála hann með góðum glans sem hægt er að þurrka af og þrífa auðveldlega. 

Handföng
Þú opnar og lokar skúffum og skápum mörgum sinnum á dag og því gott að hafa grip sem auðvelt er að ná í. Hugsaðu út í hvernig höldur þú vilt hafa á innréttingunni. Kannski er ráð að velja praktísku lausnina í staðinn fyrir útlitið.

Notkun
Prófaðu að setja þig í aðstæður hvernig þú munir nota eldhúsið. Það mun auðvelda þér heilmikið að reyna staðsetja glös, diska og annað hvort velja eigi skúffur eða skápa til hægri og vinstri.

Vinnupláss
Það er mikilvægt að vera með gott vinnupláss í eldhúsinu. Reyndu að hafa í það minnsta eins metra langt pláss einhversstaðar í eldhúsinu. Og reyndu að halda „græjunum“ í lágmarki upp á borðinu. Kannski þarf safapressan og poppvélin ekki að standa þarna alla daga vikunnar.

mbl.is/Arizona Daily Star
mbl.is