Ómótstæðilega Ella sigrar heiminn

Ella Mills.
Ella Mills.

Ella Woodward var á öðru ári í St. Andrews-háskólanum í Bretlandi þegar heilsu hennar fór að hraka. Hún var að lokum greind með sjaldgæfan sjúkdóm að nafni POTS eða staðbundna hjartsláttartruflun sem hefur áhrif á taugakerfi, hjartslátt, blóðþrýsing og meltingu svo fátt eitt sé talið. Að auki var hún sífellt þreytt og reglulega með sýkingar eða einhverja kvilla. Hún var sett á fjölda lyfja sem gerðu takmarkað gagn. Ári eftir greininguna var hún komin að niðurlotum; bæði andlega og líkamlega.

Ella, Matt ásamt heimilishundinum.
Ella, Matt ásamt heimilishundinum.

Eftir að hafa legið yfir lesefni ákvað hún að breyta mataræði sínu og skipta alfarið yfir í jurtafæði. Hún hafði nákvæmlega engu að tapa á þessum tímapunkti og var tilbúin að reyna allt. Það voru bara þrjár hindranir í veginum: Ella kunni ekki að elda, hafði enga þekkingu á jurtafæði og var búin að missa allan drifkraft sakir veikinda. Til að koma sér í gang og prufa sig áfram ákvað hún að byrja með bloggsíðu þar sem hún gæti haldið utan um uppskriftirnar.

Hér eru Ella og Matthew með nýfædda dóttur sína Skye …
Hér eru Ella og Matthew með nýfædda dóttur sína Skye Tessa.

Ella segir að það hafi verið sér ákaflega mikilvægt að slá aldrei af bragðgæðum matarins. Þó að hráefnin væru önnur þyrfti það ekki að hafa áhrif á hversu vel maturinn bragðaðist og máltíð gæti enn verið mikil gleðistund þótt mataræðið væri breytt. Næsta ár fór í að læra að elda, mynda og skrásetja það sem hún var að gera. Á þeim tíma óx ástríða hennar gagnvart mataræðinu og eldamennsku. Líkamlegt ástand hennar tók stakkaskiptum og lífið komst hægt og rólega á rétt ról.

Á sama tíma hvöttu vinir hennar hana til að deila bloggsíðunni með heiminum og eftir nokkurn tíma lét hún undan þrýstingnum og hið undraverða gerðist. Á merkilega stuttum tíma fóru uppskriftir Ellu að vekja athygli og fljótlega kom Deliciously Ella-appið sem fór rakleitt á toppinn í Bretlandi. Í framhaldinu bauðst Ellu að skrifa sína fyrstu matreiðslubók sem seldist í bílförmum og var í framhaldinu gefin út hér á landi.

Vörur frá Ellu njóta mikilla vinsælda og þykja frábærlega vel …
Vörur frá Ellu njóta mikilla vinsælda og þykja frábærlega vel heppnaðar.

Ella kynntist núverandi eiginmanni sínum, Matthew Wills, á þessum tíma en hann er sonur fyrrverandi ráðherra breska verkamannaflokksins, Tessu Jowell. Wills var með bakgrunn og bakland í fjármálageiranum og má segja að hann hafi verið einmitt það sem Ella þarfnaðist á þessum tíma því vörumerkið Deliciously Ella hefur vaxið og dafnað í höndum þeirra. Sjálf hefur Ella sagt að samstarf þeirra sé eins og best verður á kosið; hún sjái um skapandi hliðina en hann um reksturinn. Nú er svo komið að vörur fyrirtækisins er fáanlegar um heim allan og núna síðast hér á landi.

Fyrsta bók Ellu, Ómótstæðileg Ella, kom út hér á landi …
Fyrsta bók Ellu, Ómótstæðileg Ella, kom út hér á landi árið 2016 og hlaut frábærar viðtökur.

Það sem einkennir vörurnar er að sögn Ellu sá heiðarleiki sem fylgir þeim. Það séu engin aukaefni, engin óhollusta og engin vitleysa í gangi. Bestu hráefnin séu ávallt valin og hvergi hvikað frá gæðunum.

Saga Ellu og Matthews er ævintýri líkust en þrotlaus vinna liggur að baki þeim árangri sem þau hafa náð. Ella hefur nú gefið út fimm bækur og tvö öpp og það er stöðug vöruþróun í gangi. Þau passa þó upp á hvort annað og eignuðust fyrir tveimur vikum dóttur sem hlaut nafnið Skye Tessa, í höfuðið á móður Matthews sem lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert