Enginn uppskerubrestur í gangi

Grænmeti streymir nú í verslanir.
Grænmeti streymir nú í verslanir. mbl.is/

Nú streymir útirækin frá íslenskum grænmetisbændum í verslanir og þykir grænmetið með afbrigðum gott í ár. Einhverjar fyrirspurnir höfðu borist Matarvefnum vegna skorts á agúrkum en Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjubænda, sagði svo ekki vera „Stundum koma sveiflur í framboðið á gúrkum. Bændur þurfa að endurnýja plönturnar í sínum húsum og á meðan þær eru að ná fullum afköstum þá geta komið smá sveiflur."

Það séu spennandi tímar í vændum þar sem grænmetið streymi nú í verslanir. „Kartöflur komu fyrstar, svo mætti blómkálið á svæðið, spergilkálið hefur fylgt svo fast á eftir en uppskeran á því er ekki alveg búin að ná hámarki ennþá þó neytendur séu farnir að sjá það í verslunum," segir Kristín.

Gulræturnar séu einnig að koma í verslanir og upptaka á rófum er byrjuð. Hins vegar sé hvítkálið mætt og er framboð þess stöðugt að aukast. Það sama gildi um grænkálið en það nýtur mikilla vinsælda eins og reyndar allt íslenskt grænmeti gerir enda framúrskarandi vara í alla staði.

Mikil eftirspurn er eftir útiræktaða grænmetinu þessa dagana og reyna bændur að anna henni eftir sinni bestu getu.

Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjubænda.
Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjubænda. mbl
mbl.is