Íslenskt koffínvatn tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna

Nýjasta afurð Ölgerðinnar Egils Skallagrímssonar, 105 koffínvatn, hefur verið tilnefnt til alþjóðlegu InnoBev verðlaunanna sem besti vatnsdrykkurinn.

105 er nýkominn í verslanir en hann er kolsýrt vatn sem inniheldur 105 mg af koffíni. Búast má við góðum viðtökum þar sem sambærilegur drykkur er ekki á markaði hér. Bæði inniheldur hann íslenskt vatn og náttúruleg bagðefni, auk þess sem hann inniheldur hvorki sykur né sætuefni.

„Það eru engin kolvetni í 105 og þar af leiðandi enginn sykur, né kaloríur. Þetta er vatnsdrykkur sem er í ofanálag tannvænn. Hér er því komin heilsusamlegri leið til þess að neyta koffíns og við hlökkum mikið til að kynna þennan drykk fyrir íslenskum neytendum,“ segir Svavar Kári Grétarsson, vörumerkjastjóri 105.

105 fæst í tveimur bragðtegundum; annars vegar með greipaldin bragði og hins vegar með bragði af grænu tei og sítrónu.

mbl.is