Brakandi brokkólí sem ærir óstöðuga

mbl.is/Hanna

Hér er mögulega aðeins verið að ýkja enda ósennilegt að matur geti verið ærandi. Eða hvað? Við sem vitum fátt betra en að borða góðan mat þekkjum áhrifin sem hann getur haft á geðið og þess vegna er það kannski ekki svo langsótt að einhver geti hreinlega ærst af gleði við að borða eitthvað gott. Eins og þennan brokkólírétt en eins og þið vitið þá er bullandi brokkólíuppskera í gangi og því um að gera að njóta þess að borða þessa ofurfæðu.

Þessi uppskrift kemur frá henni Hönnu en hún segir að rétturinn sé jafn góður sem aðalréttur og sem meðlæti. Hún eldaði hann í leirpotti en auðvitað sé hægt að elda hann í annars konar íláti. Gott sé að bera réttinn fram með kaldri sósu.

Brakandi brokkólí sem ærir óstöðuga

  • 500 g brokkólí (skera stilkinn af svo að það fari betur á fatinu)
  • 200-250 g halloumiostur – skorinn í sneiðar
  • 1 gulur laukur – fínsaxaður
  • 5-6 litlir tómatar (eða 3 stórir)
  • 2 tsk. þurrkað oreganó
  • 1-1½ msk. olía
  • salt og pipar

Hvítlaukssósa með graslauk – allt hráefni hrært saman (gott að láta hana aðeins standa)

  • 30-40 g graslaukur – saxaður. Ath. nota rúmlega 20 g í sósuna og afganginn til að skreyta
  • 1 dl rjómaostur
  • 2½-3 dl sýrður rjómi
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 2-4 hvítlauksrif – pressuð

 Aðferð:

  • Ofninn hitaður í 175°C (yfir- og undirhiti)
  • Lítið vatn hitað í potti – saltað aðeins
  • Stilkurinn skorinn af brokkólíinu
  • Þegar vatnið er farið að sjóða er brokkólíið sett í pottinn og látið sjóða í 5 mínútur með loki yfir (7-8 mínútur fyrir þá sem vilja hafa brokkólíið meira soðið).  Suðutíminn fer svolítið eftir stærð en það missir fallega græna litinn og verður mýkra ef það er soðið of mikið. Tekið úr pottinum og vatnið látið renna af
  • Tómatar skornir í litla bita og laukur fínsaxaður – sett í skál
  • Olíu, óreganó, salti og pipar blandað saman við
  • Halloumiosturinn skorinn í sneiðar (ekki of þykkar). Skorið í brokkólíið og sneið af halloumi sett hér og þar. Stundum sleppi ég því að skera rákirnar og set sneiðarnar þar sem ég get komið þeim fyrir
  • Brokkólíð sett í leirpott eða eldfast mót og látið ofarlega í ofninn í 10 mínútur
  • Tekið út og maukinu hellt yfir. Sett aftur í ofninn í 5 mínútur
  • Eftir að rétturinn hefur verið tekinn út er gott að setja lok á til að halda honum heitum
  • mbl.is/Hanna
    mbl.is/Hanna
    mbl.is/Hanna
    mbl.is/Hanna
    mbl.is/Hanna
    mbl.is
    Fleira áhugavert
    Fleira áhugavert