Verkirnir hurfu með breyttu mataræði

mbl.is/

Halla Gunnarsdóttir er ein þeirra sem hafa upplifað gríðarlegar breytingar á heilsu sinni eftir að hafa breytt mataræðinu. Hún segist ekki geta lýst breytingunum eftir að hún byrjaði á lágkolvetnafæðinu og ketómataræðinu í framhaldinu.

„Ég er búin að vera að glíma við gigt í langan tíma og hef verið háð sterkum gigtarlyfjum til fjölda ára. Ég hef orðið að skera niður við mig vinnu og verkirnir hafa á tíðum verið óbærilegir. Ég hafði ekki hreyft mig í langan tíma en ákvað að taka heilsuna föstum tökum og fór af stað í hreyfingu og tók mataræðið mjög föstum tökum samhliða því,“ segir Halla.

„Ég hefði ekki trúað þessum umskiptum á þessum skamma tíma ef ég væri ekki að upplifa það á eigin líkama og liðum. Ég hef síðan 2012 tekið gigtarlyfið daglega en á aðeins nokkrum vikum á ketómataræði er ég hætt á þessu lyfi og líðanin í líkamanum er hreint ótrúleg. Orkan er auðvitað allt önnur þegar ég er laus við verkina og það skemmir ekki fyrir að ég missti 10 kg á tiltölulega skömmum tíma og þar sem ég hef haldið mig við þetta mataræði, ekki síst vegna vellíðunarinnar, stend ég í dag 20 kg léttari frá því ég byrjaði á ketó.“

Halla bætir því við að vegferðin hafi gengið ótrúlega vel og raunar langt umfram sínar björtustu vonir. „Líðanin er stórkostleg og þetta er sá lífsstíll sem ég mun halda mig við.“

mbl.is