Sex góðar ástæður til að borða engifer

Prófaðu að blanda engiferi út í te - það er ...
Prófaðu að blanda engiferi út í te - það er allra meina bót. mbl.is/Colourbox

Í þessum árstíðaskiptum sem ganga yfir þessa dagana er ekki ólíklegt að þú nælir þér í kvef eða aðra kvilla sem fylgja oft haustinu. Þá er gott að vera vel undirbúinn og skoða nánar engiferrótina sem oftar en ekki er þekkt fyrir að vera náttúrulegt lækningameðal.

Engifer er fáanlegt í ýmsum formum, þurrkað, ferskt, jafnvel sem olía eða safi. Þú getur borðað engifer á ýmsa vegu en ekki er mælst með að borða meira en 4 grömm á dag og einungis 1 gramm ef þú ert barnshafandi. Börn á aldrinum 2-6 ára mega mest borða um 2 grömm af engifer á dag.

Linar maga- og þarmaverki: Það er gott að bæta engifer út í matargerðina til að losna við magaverki, uppþembu og jafnvel niðurgang. Engifer virkar einnig mettandi er við borðum það með mat.

Fyrirbyggir veikindi: Ef þú verður auðveldlega sjó- eða bílveik/ur er gott að borða engifer. Það minnkar líkur á að þú kastir upp, fáir svima eða svitaköst. Þess vegna er oft talað um að engifer sé gott fyrir barnshafandi konur fyrstu mánuði meðgöngunnar. Engifer er einnig blóðþynnandi og minnkar líkur á hjartasjúkdómum.

Dregur úr bólgum og verkjum: Rannsóknir hafa sýnt fram á að engifer er jafn áhrifaríkt og verkjatöflur. Það hjálpar til við tíðahvörf, hausverki, er vöðvaslakandi og linar verki í liðum. Því er góður kostur að drekka einn tebolla með engifer fyrir svefninn og ná góðri slökun fyrir  nóttina.

Minnkar líkur á krabbameini: Engiferrót inniheldur mikið af andoxunarefnum sem getur minnkað líkur á krabbameini. Bætum smávegis af engiferi út í morgunskálina okkar eða tebollann – það getur ekki sakað.

Bætir ónæmiskerfið: Ef þú borðar engifer daglega í einhverju formi, snarminnkar þú líkurnar á því að næla þér í flensu.

Hjálpar til á vigtinni: Bættu engifer út í matargerðina og þú munt finna minna fyrir svengd sem fær þig til að borða minna.

mbl.is/Colourbox
mbl.is