„Án efa með því betra sem ég hef smakkað“

Árni tók þetta alla leið eins og sjá má.
Árni tók þetta alla leið eins og sjá má. mbl.is/Árni Torfason

Hver man ekki eftir fréttinni sem birtist fyrr í vikunni um nýju vöruna frá KFC? Um var að ræða steiktan kjúkling í kleinuhringjaklemmu og spurt hvort útkoman yrði sturluð eða stórkostleg.

Það er mér mikið gleðiefni að greina frá því að niðurstaða er komin í málið og það er enginn annar en Árni Torfason sem tók það að sér að gera réttinn frá grunni og útkoman er með því betra sem sést hefur á netinu.

Árni, sem er búsettur í Svíþjóð, segist hafa séð status hjá Pétri Jónssyni á twitter eftir að hafa lesið fréttina á mbl.is. „Ég ákvað að slá til og prufa þetta. Vissi að ég átti mjög góða uppskrift að djúpsteiktum kjúklingi sem og frábæra uppskrift að kleinuhringjum. Þannig að það steinlá að skella sér í þetta. Hef gaman af því að dunda mér í eldhúsinu og einstaklega skemmtilegt að prufa eitthvað svona furðulegt eins og þennan borgara,“ segir Árni.

„Ég veit ekki hvort það var af því að ég var búinn að eyða svona 3-4 tímum að útbúa borgarann eða af því að þetta var bara svona frábært en þetta var án efa með því betra sem ég hef smakkað. Ég reyndar gerði þau mistök að fá mér svo kleinuhring í kaffitímanum líka og svo djúpsteiktan kjúkling aftur um kvöldið. Ég fann hreinlega fyrir æðunum þrengjast þannig að ég hugsa að ég geri þetta ekki aftur í bráð.“
Árni segist hiklaust mæla með þessum rétti en hann sé ekki þess eðlis að hægt sé að borða hann á hverjum degi. „Þetta er líklegast svona einu-sinni-á-ævinni-upplifun. Svona svipað eins og Nutella-borgarinn hjá McDonald's sem ég einmitt prufaði líka að endurgera fyrir þremur árum.“

Fyrir þá sem vilja leika þetta eftir má nálgast uppskriftirnar sem Árni notaði hér að neðan. Hann segist reyndar vera með eitt leynilegt hráefni sem hann megi ekki gefa upp þar sem hann sé bundinn þangarskyldu gagnvart háttsettu fólki innan KFC.

Og hérna fyrir kleinuhringina.
mbl.is