Kjúklingasalatið sem læknar mánudagsþunglyndið

mbl.is/Berglind Guðmundsdóttir

Sum salöt eru svo góð að þau gera allt betra. Eins og mánudaga sem reynast mörgum þungir. Búðu þér til þetta salat og hreiðraðu um þig uppi í sófa í kvöld og láttu mánudaginn renna úr þér. Við lofum að það verður allt betra.

Það er engin önnur en Berglind Guðmundsdóttir á GRGS.is sem á þetta salat og það er eins og sagt er: Merkið tryggir gæðin!

Kjúklingasalat lífsins með hvítlauks- og engiferdressingu

Fyrir fjóra

  • 4 kjúklingabringur
  • salt og pipar
  • 1 dl hunang eða agavesíróp
  • 3 msk. sesamfræ
  • 2 pokar klettasalat
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 mangó, skorið í bita
  • 2-3 avokadó, skorin í litla bita
  • 3 kíví, skorin í litla bita
  • nachos-flögur, muldar

Hvítlauks- og engiferdressing

  • 1 dl extra virgin ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 msk. ferskur engifer, rifinn
  • ½ kjúklingateningur
  • 2 msk. fersk steinselja, söxuð
  • salt og pipar

Leiðbeiningar

  1. Skerið kjúklingabringurnar í munnbita.
  2. Hitið olíu á pönnu og fullsteikið kjúklinginn. Bætið hunangi/sírópi og sesamfræjum saman við og látið malla í smá stund eða þar til kjúklingurinn hefur fengið á sig gylltan lit.
  3. Setjið klettasalat í skál og látið tómata, mangó, avokadó og kíví saman við.
  4. Útbúið því næst dressinguna. Látið ólífuolíu í skál og setjið pressaðan hvítlauk, fínrífið engifer og saxaða steinselju saman við. Smakkið til með salti og pipar og meiri hvítlauk eða engifer eftir smekk. Setjið yfir salatið og endið á að mylja nachos-flögur yfir allt.
mbl.is/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert