Borgari sem fær þig til að falla í yfirlið

Algjörlega sturlaðir borgarar með portobello sveppum.
Algjörlega sturlaðir borgarar með portobello sveppum. mbl.is/Minimalistbaker.com

Ef þú hefur ekki smakkað þessa borgara þá áttu margt eftir í þessu lífi. Við erum að tala um unaðssprengju fyrir bragðlaukana sem sprengir alla skala. Hér er venjulegu hamborgarabuffi skipt út fyrir safaríka og marineraða portobello sveppi, aioli dressingu og karamellu lauk. Þurfum við að segja eitthvað meira?

Þú getur unnið þér tíma með þessari uppskrift því sveppirnir geymast í 2-3 daga í ísskáp (þó bestir ferskir) og aioli geymist í 7-10 daga inni í kæli.

Portobello-borgari sem fær þig til að falla í yfirlið (fyrir 4)

Hvítlauks aioli:

  • 1 heill hvítlaukur (til að rista)
  • ¾ bolli kasjúhnetur
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 1 msk. ólífuolía
  • ⅓ bolli vatn
  • salt og pipar

Borgarar:

  • 4 portobello sveppir
  • 3 msk. ólífuolía
  • ¼ bolli balsamik edik
  • 1 msk. basilikum eða oregano krydd
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • salt og pipar

Karamellulaukur:

  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 hvítur laukur, skorinn niður

Annað:

  • 4 hamborgarabrauð
  • 2 tómatar
  • salat

Aðferð:

Hvítlauks aioli:

  1. Hitið ofninn á 200°C. Skerið hausinn af hvítlauknum (efsta hlutann af heila hvítlauknum), og dreypið ólífuolíu yfir ásamt sjávarsalti. Pakkið lauslega inn í álpappír, setjið á ofngrindina og bakið í 1 klukkustund. Látið kólna.
  2. Setjið kasjúhneturnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið standa í 1 klukkustund. Hellið þá vatninu af.
  3. Setjið kasjúhneturnar í blandara og kreistið mjúkan ristaðan hvítlaukinn úr hýðinu og saman við hneturnar. Setjið einnig ferska hvítaukinn saman við, olíuna, vatnið og saltið og piprið. Blandið þar til mjúkt og rjómakennt. Smakkið til, og bætið við meiri olíu eða vatni til að gera blönduna meira rjómakennda.

Karamellulaukur:

  1. Hitið olíu á pönnu á meðalhita. Setjið skorinn laukinn á pönnuna og saltið. Hrærið stöðug í þar til laukurinn verður gylltur á lit og mjúkur. Setjið til hliðar.

Borgarar:

  1. Hreinsið sveppina og leggið þá á bökunarpappír á bökunarplötu með toppinn niður á við.
  2. Mixið saman í skál ólífuolíu, balsamikedik, krydd, hvítlauk, salt og pipar. Hellið því næst blöndunni yfir sveppina og notið pensil til að dreifa úr blöndunni jafnt yfir sveppina – snúið sveppunum við og penslið líka hina hliðina en munið að snúa þeim aftur „á bakið“. Leyfið þeim að standa í smá tíma til að draga í sig marineringuna.
  3. Hitið grillpönnu og steikið sveppina í 2-4 mínútur á hvorri hlið. Penslið þá jafnvel á meðan með restinni af marineringunni.
  4. Skerið tómata og salat niður og hitið hamborgarabrauðin.
  5. Setjið góða matskeið af aioli á botn-brauðin, því næst salat og tómata – portobellosveppi, karamellulauk og meira af aioli á toppinn. Berið strax fram. 
mbl.is/Minimalistbaker.com
mbl.is/Minimalistbaker.com
mbl.is/Minimalistbaker.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert