Það tilheyrir haustinu að taka slátur

Dóra gerir lifrarpylsu á hverju hausti. Hún segir að þetat …
Dóra gerir lifrarpylsu á hverju hausti. Hún segir að þetat sé ekkert mál nú til dags. mbl.is/Bjarni Sveinsson

„Þetta var ekkert mál, ég er vön að vinna hratt. Mér finnst rosalega gaman að gera þetta. Það tilheyrir haustinu að taka slátur,“ sagði Dóra Steindórsdóttir, sem bráðum verður 85 ára. Hún keypti 31 slátur á sláturmarkaði SS og Hagkaupa á fimmtudaginn var og vann úr þeim daginn eftir. Dóttir hennar, Steinunn Þorvaldsdóttir, var með henni og voru þær mæðgur um sjö klukkutíma að þessu smáræði sem Dóru fannst. Lifrarpylsan fer á fjögur heimili og verður borðuð með góðri lyst í vetur.

Dóra er fædd í Vestmannaeyjum og kennd við Hlíðardal þar sem hún ólst upp. Guðjón Jónsson, fósturfaðir hennar, var sjómaður og líka með kindur sem var slátrað heima. Dóra kynntist því snemma sláturgerð. Hún lærði líka að reyta lunda og fýlsunga og sat við að reyta fýlinn frá morgni til kvölds á meðan fýlatíminn stóð yfir. Dóra kunni vel að meta saltaðan fýl.

Hún giftist Þorvaldi Ingólfssyni og stofnuðu þau heimili í Vestmannaeyjum og eignuðust dæturnar Steinunni og Ingu Hrönn. Eftir eldgosið í Heimaey 1973 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Þar vann Dóra lengi sem dagmóðir og á þeim árum tók hún 60-70 slátur á hverju hausti.

„Ég er ekkert þreytt eftir sláturgerðina, þótt ég finni að ég er ekki alveg eins og þegar ég var ung,“ sagði Dóra. „Ég er nýhætt að nota vambir í keppina. Þetta er ekkert orðið í dag eftir að pokarnir komu og mörinn fæst brytjaður. Steina setti hræruna í pokana og svo var bara lokað fyrir með nælu.“

Lifrarpylsan sem Dóra býr til þykir einstaklega ljúffeng. En hvernig fer hún að? „Það er ekkert leyndarmál. Ég vigta allt. Er ekki svo klár að ég geti bara slumpað, eins og sagt var í gamla daga. Vil bara hafa mína uppskrift. Ég hræri ekki mikið í þessu en í gamla daga var blandað svo mikið til að fá meira út úr þessu.“

Lifrarpylsa Dóru

  • Tíu lifrar
  • 20 nýru eða ein aukalifur
  • 2½ l mjólk
  • 5 dl vatn
  • 5 msk. kjötkraftur (pulver buljong) fæst í Hagkaupum
  • 5 msk fínt salt
  • 900 g haframjöl
  • 1.750 g rúgmjöl
  • 3 kg brytjaður mör

Salt og kjötkraftur sett í kalt vatnið í potti, hitað og leyst upp. Lifur og nýru hökkuð og hrærð saman. Mjólkinni bætt í hræruna og vatninu með kjötkraftinum og saltinu. Mjölinu bætt út í sitt á hvað og hrært vel. Síðast er mörnum bætt við.

Þetta passar í um 30 poka. 450 g af hræru eru sett í hvern poka og lokað með nælu. Gott er að nota stút til að fylla á pokana. Lifrarpylsan er soðin í 2½ klukkustund í vel söltu vatni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert