Góðgerðarpítsa Domino‘s fer í sölu í dag

Ljósmynd/Aðsend

Góðgerðarpítsa Domino‘s fer í sölu í dag en það er engin önnur en Hrefna Sætran sem sá um hönnun hennar.

„Þetta er í sjöunda skipti sem boðið er upp á Góðgerðarpizzuna hjá Domino‘s. Öll sala á pizzunni rennur óskipt í Minningarsjóð Lofts Gunnarssonar sem einblínir á stuðning við heimilislausa. Þetta er jafnframt í annað skiptið sem við hjá Domino‘s förum í samstarf með Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar vegna árangursins sem við sáum eftir samstarfið eftir Góðgerðarpizzuna 2014. Þá tókst okkur með sölu á Góðgerðarpizzunni að bæta aðbúnað heimilislausra töluvert, meðal annars með nýjum húsgögnum og nauðsynlegum tækjum í fjögur athvörf heimilislausra í Reykjavík,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Að þessu sinni er áhersla lögð á stuðningsverkefni Minningarsjóðsins sem kallast „Aftur út í lífið“ og snýr að því að koma heimilislausum af götunni en til þess að gera það þurfa heimilislausir stuðning og þjónustu á ýmsum sviðum. Með sölu á Góðgerðarpizzunni er stefnt að opnun dagrýmis fyrir heimilislausa. Dagrýmið er þáttur í því að aðstoða fólk sem vill komast úr þessum aðstæðum með því að bjóða því öruggt skjól yfir daginn þar sem verður boðið upp á ýmiss konar afþreyingu en einnig verður hægt að nálgast þar félagsráðgjafa og meðferðarfulltrúa.

Góðgerðarpítsa Domino‘s verður í sölu dagana 21.-25. október. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert