Sérhannaði sultuna fyrir Domino‘s

Hrefna Sætran.
Hrefna Sætran.

Góðgerðarpítsa Domino‘s kemur í sölu í dag og verður til sölu þessa vikuna. Það er engin önnur en Hrefna Sætran sem sá um hönnun hennar og verður að segjast eins og er að útkoman er frekar frábær.

Hrefna paraði saman klassískt pepperoni, papriku, sveppi, fetaost, sterkt pepperoni og gómsæta rauðlaukssultu. Að sögn Hrefnu var þetta fremur langt ferli.

Við vorum að þessu í apríl en síðan þurfti pítsan að öðlast alþjóðlegt samþykki því það þarf auðvitað að fylgja ákveðinni línu hjá svona stóru fyrirtæki. Ég valdi pepperóní — bæði því það er vinsælasta áleggið og maður vill auðvitað að sem flestir kaupi pítsuna en líka af því að mér finnst það gott. Svo bætti ég við sterku pepperóníi sem er mun minna en passar vel með klassíska Domino‘s-pepperóníinu. Síðan kemur fetaosturinn með ákveðna mýkt, paprikan með ferskleikann og rauðlaukssultan setur síðan punktinn yfir i-ið.“

Hrefna segir að sultan hafi veið sérhönnuð í samráði við Domino‘s og hún sé hæstánægð með útkomuna. Pítsan verður sem áður segir til sölu þessa vikuna og rennur öll sala á pítsunni óskipt í Minningarsjóð Lofts Gunnarssonar en með sölu á Góðgerðarpizzunni stefnt að opnun dagrýmis fyrir heimilislausa. Dagrýmið er þáttur í því að aðstoða fólkið sem vill komast úr þessum aðstæðum með því að bjóða því öruggt skjól yfir daginn þar sem verður boðið upp á ýmiss konar afþreyingu en einnig verður hægt að nálgast þar félagsráðgjafa og meðferðarfulltrúa.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is