Vissi ekki að viðskiptavinurinn var heimsfrægur

mbl.is/Facebook

Síðasta laugardagskvöld var bara hefðbundið hjá Kevin Tortorella sem á matarbílinn Baddest Burger & Sandwich Company. Hann var bókaður í brúðkaup og átti að vera opinn frá klukkan tíu um kvöldið til tvö um nóttina.

Tortorella segir að hann hafi farið að gruna að þetta væri enginn venjulegur viðskiptavinur þegar hann sá hóp ljósmyndara freista þess að ná myndum af svæðinu og svo loks fékk hann staðfest að það var engin önnur en leikkonan Jennifer Lawrence sem var að gifta sig.

Frægasta fólk veraldar mætti í brúðkaupið en Tortorella lét sig það litlu varða. Hann segir að fyrstu gestirnir hafi mætt til hans um hálftólf en hann hafi verið að til klukkan fjögur um nóttina. Hann gat þó ekki borið kennsl á neinn frægan viðskiptavin enda fylgist hann lítið með dægurmenningu en hafði þó orð á því að einn herramaðurinn hefði verið ljóshærður, vöðvastæltur og einstaklega myndarlegur. Hafa fjölmiðlar vestanhafs leitt að því líkur að þar hafi annar hvor Hemsworth-bróðirinn verið á ferð.

Jennifer Lawrence.
Jennifer Lawrence. Matt Winkelmeyer
mbl.is