Bestu bökunarráð Evu Laufeyjar

Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran á heiðurinn að Kökubæklingi Nóa Síríus …
Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran á heiðurinn að Kökubæklingi Nóa Síríus í ár. mbl.is/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Það eru fáir jafn flinkir að baka og Eva Laufey en á dögunum kom út kökubæklingur Nóa Síríus sem er með því flottara sem sést hefur. Urmull girnilegra uppskrifta prýða síður hans og ljóst er að Eva hefur toppað sjálfa sig í þetta skiptið. 

Sjálf segir Eva að kökubæklingurinn hafi verið hugsaður sérstaklega með börnin okkar í huga. Uppskriftirnar séu þess eðlis að börnin geti auðveldlega bakað upp úr honum. „Það eru uppskriftir sem eru mjög einfaldar og svo aðrar sem eru aðeins flóknari en ekkert sem börn og fullorðnir ráða ekki við. Ég fékk að taka mín fyrstu bakstursskref í eldhúsinu hjá ömmu og mömmu og nú er fimm ára stelpan mín alltaf með mér í bakstrinum sem er ótrúlega skemmtilegt og dýrmætt. Hún er reyndar farin að segja mér að stíga til hliðar og leyfa henni að gera þetta ein - og ég leyfi henni það að sjálfsögðu en er alltaf innan handar og fylgist vel með. Það er ótrúlegt hvað börnin okkar eru miklir snillingar og fljót að læra og um að gera að leyfa þeim að njóta sín í eldhúsinu. Ég er farin að sjá þann dag í hyllingum þegar stóra stelpan verður farin að baka pönnukökur í morgunmat og vekur okkur með pönnukökuilm, það er smá tími í það og það borgar sig þess vegna að kenna þeim sem fyrst. Við græðum alltaf á því," segir Eva.

Hvernig kökur finnst þér skemmtilegast að baka? „Mér finnst svo gaman að baka og það er algjörlega mín hugleiðsla. Kökur sem ég tengi við ömmu mína finnst mér sérstaklega gaman að baka og þá hellist ákveðin nostalgía yfir mig. Það fer eftir stemningu hvað ég baka, stundum elska ég að skella í einfalt eplapæ og þeyta rjóma og aðra daga elska ég að útbúa fjögurra laga tertur með fyllingum og mikið skreyttar. Það fer allt eftir tilefninu en ég elska að baka kökur, allar gerðir."

Er einhver kaka sem klikkar aldrei og allir elska? „Ég hef komist að því að marengskaka er eiginlega nauðsynleg í boð og það er fyrsta kakan sem klárast og líklegust til þess að falla í kramið hjá öllum. Það er hægt að gera allskonar kökur með marengs og til dæmis er marengs tölustafurinn algjör snilld og hittir beint í mark í afmælisboðum. Klassísk súkkulaðikaka stendur líka alltaf fyrir sínu og helst bara eins hefðbundin og hægt er, það er eins og við sækjum meira í gamlar og góðar uppskriftir þó það sé vissulega gaman að prófa að krydda upp á þær gömlu að þá virðast þessar klassísku langbestar."

Hvert er besta bökunarráðið sem þér hefur verið gefið? „Besta bökunarráðið er án efa að gefast aldrei upp, það má hljóma undarlega en stundum gengur baksturinn ekki í fyrstu tilraun og það getur verið vegna þess að þú þekkir ekki bakaraofninn nægilega vel, hráefnin ekki nógu góð og hundrað fleiri ástæður og þá má ekki gefast upp þó það klikki stundum annars væri ég löngu hætt að baka. En svo eru það praktísku ráðin, alltaf að byrja á því að hita ofninn, vera með hráefnin við stofuhita, fylgja uppskriftinni af því bakstur er efnafræði, kæla kökur þegar það stendur kæla… af því smjörkrem bráðnar. Smyrja formin vel og þekkja bakaraofninn sinn því þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Það er líka frábært að skreyta kökur þegar botnarnir eru frosnir og því tilvalið að gera þá með fyrirvara og taka þá síðan út 5-6 tímum áður en þið berið hana fram."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert