Héldu stórveislu með maukuðum mat

Hér má sjá brot af þeim kræsingum sem boðið var …
Hér má sjá brot af þeim kræsingum sem boðið var upp á. Ljósmynd/Aðsend

Þriðjudaginn, 5. nóvember var haldin stórveisla í Menntaskólanum í Kópavogi með heldur óhefðbundnu sniði. Í samstarfi við MND félagið reiddu nemendur skólans í matvælagreinum fram hátíðarkvöldverð þar sem allur matur var maukaður.

Á síðastliðnu ári kom formaður MND félagsins Guðjón Sigurðsson og Guðlaug Gísladóttir næringarfræðingur á Landspítala að máli við forsvarsmenn skólans til að óska eftir samstarfi um að halda veislu fyrir fólk með kyngingarvanda. Að sjálfsögðu var því vel tekið og spennandi áskorun að útbúa hátíðarkvöldverð með slíku sniði sem má nýta sem fyrirmynd fyrir aðra.

Tilgangur verkefnis er að búa til veislumat með breyttri áferð og búa til námskeið fyrir áhugasama um bætta líðan fólks með kyngingarerfiðleika. Tilgangurinn er að sýna fram á að matur í allri sinni mynd getur verið bragðgóður, næringarríkur og fallegur.

Nemendur í matartækna- og matreiðsludeild hafa verið að læra um fæði með breyttri áferð. Þeir hafa þróað ýmsa hefðbundna rétti og breytt þeim eftir þörfum í veislurétti með hátíðarívafi. Það voru svo nemendur framreiðsludeildar sem undirbjuggu veisluna og báru fram kræsingarnar.

Gestir voru á vegum MND félagsins, stjórnendur skólans, fagaðilar heilbrigðisstofnana auk þess sem forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson heiðraði veislugesti með nærveru sinni.

Skólinn veitti jafnframt gjöf MND félagsins viðtöku við þessa hátíðlegu athöfn.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is