Baka með stökkum botni, beikoni og karamellulauk

Stórkostlega góð baka sem mettar marga munna.
Stórkostlega góð baka sem mettar marga munna. mbl.is/Winnie Methmann

Hér er ekkert verið að baka vandræði – bara eintóma sælu sem lýsir sér í stökkri böku með fyllingu. Beikon og karamellulaukur setja sinn svip á réttinn sem hentar í kvöldmat hvaða vikukvöld sem er.

Baka með stökkum botni, beikoni og karamellulauk

Botn:

 • 200 g hveiti
 • 1 tsk. salt
 • 100 g kalt smjör
 • 4 msk. ískalt vatn
 • Tertuform, sirka 25 cm

Fylling:

 • 100 g beikon í bitum
 • 500 g blandaðir sveppir
 • 2 rauðlaukar
 • 1 msk. ólífuolía
 • 2 msk. balsamikedik

Eggjamassi:

 • 3 egg
 • 3 msk. sýrður rjómi, 18%
 • 1 msk. ferskt timían, saxað
 • Salt og pipar

Aðferð:

Botn:

 1. Blandið hveiti og salti saman í skál. Skerið smjörið í teninga og smuldrið því út í hveitið. Bætið ísköldu vatni út í og blandið saman með gaffli (bætið við vatni ef það er ekki nóg). Hnoðið deiginu saman á borðplötu og pakkið því síðan inn í plastfilmu – setjið í kæli í 30 mínútur.
 2. Fletjið tertudeiginu út með kökukefli á hveitistráðu borði og leggið í tertuformið, munið að fara upp með hliðunum. Stingið göt í botninn með gaffli og bakið í ofni í 10 mínútur.

Fylling:

 1. Steikið beikonið á þurri pönnu og setjið á eldhúsrúllu til að leyfa fitunni að leka af.
 2. Skerið sveppina í skífur og steikið þá upp úr beikonfitunni á pönnu þar til þeir byrja að taka lit.
 3. Skerið rauðlaukinn í þunnar ræmur og steikið á pönnunni, bætið jafnvel smá olíu út á. Setjið balsamik edik út á pönnuna rétt áður en rauðlaukurinn byrjar að brúnast og veltið þar til vökvinn hefur gufað upp.

Eggjamassi:

 1. Pískið egg, sýrðan rjóma og smátt saxað timían saman, saltið og piprið. Dreifið blöndunni yfir forbakaða tertubotninn.
 2. Toppið með sveppum, beikonbitum og karamellulauk. Bakið í 30 mínútur þar til eggjamassinn hefur tekið sig „fastan“ og botninn orðinn stökkur og gylltur.
 3. Skreytið með timían og berið fram.
mbl.is