Mölur fannst í Grafarvogi - húsráðendur í uppámi

Ljósmynd/Wikipedia.org

Mölur er andstyggilegt fyrirbæri sem var afar algengur hér á árum áður og var því venja að viðrað alla vefnaðarvöru reglulega og stinga mölkúlum inn í alla skápa.

Margir héldu að búið væri að útrýma mölnum en Matarvefnum barst ábending um að hann hefði fundist í Grafarvogi á dögunum, húsráðendum til mikillar skelfingar.

„Ég var að ná mér í garn og þegar ég tek það upp er það allt í henglum. Ég var fljót að átta mig þótt ég hafi ekki séð möl í tæpa hálfa öld. Því fór ég með allt út í snarhasti til að dreifa honum ekki. Við nánari skoðun komu í ljós lirfur og egg. Okkur var verulega brugðið,“ sagði frúin í Grafarvoginum sem kaus að láta nafn síns ekki getið.

Á Vísindavefnum er mölur útskýrður með eftirfarandi hætti:

Mölur eðamölfluga er í raun fiðrildi sem einnig kallastguli fatamölurinn (lat.Tineola bisselliella).

Hér áður fyrr var skordýrið hinn mesti skaðvaldur í híbýlum manna en lirfur þess leggjast á ullarvörur og skinn og naga hvort tveggja sér til lífsviðurværis. Fyrirbærið hefur oft verið nefnt fatamölur. Fatamölur var algengari í gamla daga þegar notkun á ullar- og skinnavörum var meiri en nú er. Lirfur mölflugunnar geta ekki étið bómullar- eða gerviefni og af þeim orsökum er mölurinn sjaldgæfari í dag.

Nú á dögum verður fólk fyrst og fremst vart við möl ef það hefur geymt ullarteppi í geymslunni í langan tíma og kemur að því götóttu. Ágætt er fyrir fólk sem hefur ullarteppi í húsum sínum að ryksjúga þau reglulega. Þannig er hægt að ná eggjum mölflugunnar áður en þau klekjast út og lirfurnar byrja að snæða. Þurrt loft er einnig hjálplegt í baráttunni við möl því að það gerir mölflugunni erfitt fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert