Hefðbundið ítalskt lasagna á Hlemmi mathöll

Ljósmynd/Aðsend

Osteria Emiliana er nýr staður á Hlemmi mathöll sem sérhæfir sig í lasagna og foccacia-brauði. Staðurinn er undir sterkum áhrifum frá ítalska héraðinu Emilia-Romagna sem er hjarta ítalskrar matargerðar en á meðal heimsþekkts hráefnis þaðan má nefna Parmaggiano-Reggiano-ost, balsamik edik & parmaskinku.

Nafnið á staðnum er því dregið frá þessu héraði og ítalska orðinu osteria en hefðbundin ítölsk osteria býður góðan og einfaldan mat á hagstæðu verði.

Á nýja staðnum á Hlemmi er hægt að fá fimm gerðir af lasagna sem eiga það allar sameiginlegt að vera gerðar úr ítölskum og íslenskum gæðahráefnum. Á matseðlinum er m.a. klassískt lasagna að hætti Emilia-Romagna, grænmetis- og portobello-lasagna, mornay ostasósu-lasagna og ruccola pesto-lasagna. Þá eru nokkrar útgáfu af foccacia á matseðlinum en focaccia er flatt og olíuríkt brauð sem er hefðbundið um alla Norður-Ítalíu.

Á staðnum er boðið upp á einstaklingsskammt af lasagna en einnig er hægt að fá skammta í fjölskyldustærðum til að taka með enda hentar lasagna ákaflega vel í það.

Maðurinn á bak við Osteria Emiliana er Böðvar Lemacks, yfirkokkur á veitingastaðnum Kröst, sem einnig er á Hlemmi. „Ég hafði lengi haft þessa hugmynd í maganum enda með ástríðu fyrir lasagna. Það er búið að vera virkilega gaman að vinna með þessi ótrúlegu hráefni frá Ítalíu og ég hlakka til að kynna alvörulasagna fyrir Íslendingum,“ segir Böðvar.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is