Konfektið sem er þjóðinni svo kært

Konfektið frá Nóa Síríusi hefur fylgt þjóðinni frá því á fjórða áratugnum þegar fyrsti konfektkassinn leit dagsins ljós frá Nóa sem keypti súkkulaðið einmitt frá súkkulaðigerðinni Síríusi. Þessir fyrstu konfektmolar mörkuðu tímamót í íslenskri súkkulaðisögu því síðan þá hefur konfektið frá Nóa, sem í dag heitir Nói Síríus, verið fastur fylgifiskur þegar fjölskyldan á ljúfar stundir.

Hjá Nóa Síríusi starfar stór hópur fólks sem hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu enda vart annað hægt þar sem allt nærumhverfið ilmar af súkkulaði.

„Við erum mjög fastheldin hvað konfektið varðar,“ segir Helga Beck, markaðsstjóri fyrirtækisins, aðspurð hvort konfektið hafi breyst mikið frá því það kom fyrst á markað.

„Við gerum engar breytingar nema að vel ígrunduðu máli og höldum í hefðina eins og kostur er. Þetta eru sömu uppskriftirnar sem hafa fylgt þjóðinni í hartnær sjötíu ár,“ segir Helga en bætir við að síðasta breytingin hafi verið gerð árið 2016.

„Þá bættum við Íslandsmolanum svokallaða við en okkur langaði að búa til virkilega sér-íslenskan mola og viðbrögð viðskiptavina okkar voru virkilega góð. Hann er orðinn í uppáhaldi hjá mörgum, ekki síst vegna lögunarinnar. Konfektið hefur að öðru leyti fengið að haldast nánast óbreytt í alla þessa áratugi og sjálfsagt ekki margir sem átta sig á því að margir molanna eru handgerðir auk þess sem raðað er kassana af alúð og vandvirkni. Flest okkar ólust upp við Nóa-konfektið og eigum minningar tengdar því. Kassinn er oftar en ekki dreginn fram á tyllidögum og þannig tengjum við hann við minningar sem eru okkur kærar. Hefðir eru misjafnar á heimilum en margir tengja við að þurfa að klára fyrstu hæðina áður en byrjað er á þeirri næstu og þar fram eftir götunum. Við heyrum mikið af skemmtilegum sögum og okkur þykir vænt um þær.“

„Það er ekki bara að við séum fastheldin hvað konfektið varðar heldur eru viðskiptavinir okkar það líka og kunna illa við miklar breytingar enda engin ástæða til að breyta of mikið því sem hefur alltaf staðið fyrir sínu, en við höfum alltaf hug á að bæta við úrval mola“ segir Helga brosandi og segir gott dæmi um þetta vera þegar umbúðum fyrir kílóakassanum var breytt fyrir nokkrum árum úr hvítum í svartar.

„Þetta er ekki stór breyting en fólk er enn að hringja og leita að hvíta kassanum.“

Fyrirtækið hefur tekið upp á því að bjóða upp á sértæka kassa sem innihalda þá annaðhvort fylltu molana eða marsípanmolana.

„Sú nýjung hefur mælst vel fyrir og svo brugðum við á það ráð að halda kosningu um vinsælasta molann fyrir nokkrum árum og var núggat og krisp-molinn valinn sá vinsælasti. Við ákváðum því fyrir jólin núna að bjóða upp á hann sem pralínsúkkulaði í takmörkuðu upplagi. Viðbrögðin hafa verið frábær og ég hvet fólk til að ná sér í plötu svo það missi ekki af þessu frábæra súkkulaði.“

Konfektið varð kallað munngæti hér áður fyrr.
Konfektið varð kallað munngæti hér áður fyrr.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert