Óskaði eftir mat og fékk gríðarlega peningafjárhæð

William setti skilaboð fyrir utan húsið sitt og samfélagið brást …
William setti skilaboð fyrir utan húsið sitt og samfélagið brást heldur betur vel við. mbl.is/BPM

Hann er einungis þekktur undir nafninu William og er 59 ára gamall. Hann setti skilti fyrir utan heimilið sitt þar sem hann óskar eftir mat og samfélagið brást heldur betur vel við.

William býr í Carlton í Nottingham, en hann sagði að síðasta máltíðin hans hefði verið samloka með sultu og hann ætti ekki meiri pening fyrir mat né til að borga rafmagnsreikninginn. Það liðu ekki margir tímar þar til samfélagið kom færandi hendi með mat og opnað var aftur fyrir hitann á húsinu.

Söfnun hófst samstundis fyrir William sem hefur náð hvorki meira né minna en 11.500 pundum sem gerir tæpar 2 milljónir íslenskra króna. Einn nágranninn sagðist ætla að leggja heita máltíð við dyrnar nokkrum sinnum í viku og einstæð móðir gaf eitt pund með skilaboðunum: „Afsakið að upphæðin sé ekki hærri en ég er sjálf skuldug upp fyrir haus og á lítið fé á milli handanna. En eitt pund frá mörgum skilar vonandi einhverju. Gleðileg jól.“

Það var Craig Crawford sem kom söfnuninni af stað og sagðist hann vera virkilega snortinn af því að sjá hvað allir geta staðið vel saman þegar reynir á. En peningarnir munu verða notaðir til að hjálpa William og öðrum sem þurfa á að halda.

William hefur búið einn í húsinu síðan móðir hans lést og hefur selt hin ýmsu húsgögn til að eiga í sig og á. Og í kjölfarið á fréttinni hefur ættingi Williams haft samband og ætlar að gleðja hann yfir jólahátíðina. Jólaandinn og góðmennskan er allt um kring.

mbl.is/BPM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert