Rjómalöguð kartöflumús með beikoni, sveppum og timjan

Ljósmynd/María Gomez

María Gomez á Paz.is á heiðurinn af þessari uppskrift sem hún mælir heilshugar með ef þú vilt vera skemmtilega öðruvísi.

Uppskriftin kemur úr Hátíðarmatarblaði Matarvefsins og Hagkaups en hægt er að nálgast pdf-útgáfu af blaðinu HÉR.

Rjómalöguð hvítlauks- og parmesan-kartöflumús með beikoni, sveppum og timjan

  • 1.200 g kartöflur (ekki bökunar)
  • 6 hvítlauksrif eða 2 geiralausir hvítlaukar
  • 1 bolli rjómi
  • 2 bollar nýmjólk
  • 25 g smjör
  • 2 tsk. gróft salt
  • pipar
  • ferskt timjan
  • ½ bolli rifinn parmesan
  • 1 bolli steikt beikonkurl
  • 150 g smátt skornir sveppir

Aðferð:

1. Byrjið á að taka hýðið af kartöflunum og skerið hverja kartöflu í fjóra bita, takið af hvítlauknum og merjið hvert rif með því að berja á það. Ekki setja í hvítlaukspressu.

2. Setjið kartöflur í pott og bætið rjóma, mjólk, salti og hvítlauk út í og byrjið að sjóða.

3. Látið sjóða í eins og 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.

4. Steikið beikon og sveppi saman á pönnu þar til sveppir eru orðnir vel dökkir og beikonið stökkt.

5. Þegar kartöflurnar eru soðnar er smjör sett út í og látið bráðna.

6. Stappið svo með kartöflustappara í pottinum (betra að setja ekki í matvinnsluvél því þá getur hún orðið eins og lím). Stappið vel en það er allt í lagi að hún sé smá gróf.

7. Bætið þá beikonsveppunum, ferska timjaninu, parmesanostinum og pipar út í og hrærið saman (athugið að taka laufin af timjaninu af greinunum og að magn er eftir smekk).

8. Smakkið og saltið og piprið meira ef þarf.

9. Fullkomið með reyktu kjöti og sinnepssósunni góðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert