Kjúklinga linguine í grænni pestósósu

Ljósmynd/Snorri Guðmundsson/Matur&myndir

Snorri Guðmundsson á Matur & myndir á heiðurinn að þessum frábæra rétti sem ætti að vera kærkominn á degi sem þessum.

Snorri segir réttinn vera einfaldan og góðan rjómalagaðan pastarétt sem ætti að slá í gegn hjá öllum pasta aðdáendum.

 „Að sjóða kjúklinginn við vægan hita (eða að "poacha" hann eins og það heitir á enskunni) og tæta hann svo í sundur gerir það að verkum að kjúklingurinn nær að hjúpast enn meiri sósu og verður því enn ljúffengari fyrir vikið," segir Snorri og við þökkum góð ráð.

Kjúklinga linguine í grænni pestósósu

Fyrir 4:

 • 3 stk. kjúklingabringur
 • 250 g linguine pasta / Tariello, fæst í Hagkaup
 • 90 g grænt pestó / Ég notaði Filippo Berio
 • 1 stk. laukur
 • 1 stórt hvítlauksrif
 • 150 ml rjómi
 • ½ msk. kjúklingakraftur / Oscar
 • 30 g parmesan ostur + meira með matnum
 • 6 g basil ferskt
 • 150 ml pasta vatn
Aðferð:
 1. Setjið svolítið af vatni í pott og náið upp suðu, setjið kjúklingabringurnar út í og lækkið hitann svo það kraumi í pottinum en bullsjóði ekki. Látið kjúklinginn eldast í um 15-18 mín eða þar til hann er fulleldaður. Varist að ofelda kjúklinginn því þá verður hann þurr og seigur.

 2. Færið kjúklinginn á disk og leyfið honum að hvíla í um 10 mín áður en hann er tættur í sundur með 2 göfflum.

 3. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka en geymið 150 ml af pastavatninu áður en vatnið er sigtað frá, en sterkjan í vatninu frá pastanu mun hjálpa til við að þykkja sósuna.

 4. Saxið lauk smátt og grófsaxið hvítlauk. Hitið smá olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann er orðinn glær og mjúkur. Bætið hvítlauk út á pönnuna og steikið í um 2 mín.

 5. Bætið pestó, rjóma og kjúklingakraft út á pönnuna og látið malla í nokkrar mín. Bætið pastavatninu út á pönnuna, hækkið hitann og látið krauma þar til sósan hefur þykkst svolítið. Ef sósan þykkist of mikið má bæta við ögn af rjóma.

 6. Lækkið hitann á pönnunni í vægan hita. Bætið kjúkling og pasta saman við sósuna á pönnunni og rífið parmesan ost saman við. Blandið öllu vel saman þar til sósan hylur pastað vel. Smakkið til með salti og pipar.

 7. Saxið basil og blandið saman við réttinn áður en maturinn er borinn fram.

 8. Berið fram með t.d. fersku salati og hvítlauksbrauði.

Ljósmynd/Snorri Guðmundsson/Matur&myndir
mbl.is