Súrdeigsbrauð með rauðbeðusafa

Ljósmynd/Hanna Þóra

Öll elskum við súrdeigsbrauð og okkar einstaka Hanna Þóra hefur verið manna duglegust við að kenna okkur hvernig á að baka það en við mælum svo sannarlega með að þið kannið það nánar á matarblogginu hennar, Hanna.is

Hér er brauðið bleikt og fagurt en Hanna segist hafa gaman að því að gera tilraunir með súrdeigsbrauð. 

„Rauðbeðusafinn gefur ekki mikið bragð en brauðið er þéttara í sér en súrdeigsbrauð bakað af ást og umhyggju enda með aðeins grófara hráefni.  Það þarf ekki að vera flókið að baka súrdeigsbrauð – það eina sem skiptir máli er að gefa sér nægan tíma til að láta deigið hefast.  Svo er minnsta málið að setja deigið, þegar 4 – 5 tímar eru liðnir af seinni hefingu, í ísskápinn og þar má það vera í nokkra daga. Þá er bara eftir að baka brauðið og því sáraeinfalt og fljótlegt að bjóða upp á nýbakað súrdeigsbrauð. Mæli með að skella í eitt svona.“

Súrdeigsbrauð með rauðbeðusafa

  • 160 g súrdeigsgrunnur
  • 300 ml rauðbeðusafi – við stofuhita
  • 300 g brauðhveiti
  • 100 g blanda af haframjöli, chia-fræjum, sólblómafræjum og graskersfræjum
  • 1 msk. hunang
  • 1 msk. maldon-salt

 Aðferð:

  • Rauðbeðusafa hellt í skál og súrdeigsgrunni bætt við (sjá – súrdeigsgrunnur) ásamt öllu öðru hráefni – blanda saman með sleikju. Plastfilma sett yfir og geymt í kæli í u.þ.b. 8 klukkutíma eða yfir nótt
  • Deigið tekið úr kæli. Hveiti stráð á borðplötu og deigið sett ofan á. Ágætt að leyfa því að jafna sig í u.þ.b. 20 mínútur ef tími er til
  • Hveiti sigtað yfir deigið og mótaður ferhyrningur með höndunum. Þá er hann lagður saman þrefaldur. Endurtekið
  • Degið er síðan mótað í hring með því að taka í hornin og beina þeim inn að miðju – þá myndast kúla
  • Ef til er brauðkarfa er hveiti stráð í hana, deigið sett ofan í, hveiti aftur og viskustykki yfir. Annars er viskustykki lagt í skál og hveiti stráð yfir. Deigið sett ofan í skálina – hveiti stráð yfir og deigið lokað með viskustykkinu
  • Látið standa í 6 – 7 klukkutíma við stofuhita. Ef ekki á að baka brauðið strax er mikilvægt að setja það inn í kæli eftir 4 – 5 klukkutíma til að hægja á hefingunni
  • Ofninn hitaður í 250°C – ef brauðið er bakað í potti er hann settur í ofninn kaldan
  • Ef notaður er pottur er deiginu hvolft varlega úr skálinni í pottinn annars er það sett beint á  bökunarpappir
  • Fallegt að skera í brauðið, lokið sett á pottinn og bakað í 35 – 40 mínútur. Ágætt að taka lokið af síðustu 15 mínúturnar. Ef brauðið er bakað á ofnplötu er gott að fylgjast með brauðinu síðustu 10 mínúturnar svo það brenni ekki
  • Brauðið látið kólna á grind

Geymsla:  Brauðið er best nýbakað eða daginn eftir.  Það geymist mun lengur en þá er gott að rista það á pönnu eða í brauðrist

Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
Ljósmynd/Hanna Þóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert