Er mikið mál að vera vegan?

Helga María og Júlía Sif.
Helga María og Júlía Sif. Rax / Ragnar Axelsson

Er flókið að vera vegan? er spurning sem þær systur Helga María og Júlía Sif eru spurðar reglulega enda vex það mörgum í augum að taka allar dýraafurðir út úr mataræðinu. En er það svo flókið í raun og veru? Þær systur segja svo ekki vera og á dögunum gáfu þær út fyrstu bók sína, Úr eldhúsinu okkar, sem inniheldur yfir hundrað uppskriftir sem margir vilja kalla biblíu veganistanna!

Þær systur fara þó að hlæja þegar orðið biblía ber á góma og eru sammála um það af sinni alþekktu hógværð að bókin sé hugsuð sem hálfgerður leiðavísir að veganisma, með þeirra uppáhaldsuppskriftum í bland við vinsælustu uppskriftirnar þeirra. „Við reyndum að ná yfir sem flest þannig að þarna er bæði hversdagsmatur og hátíðamatur í bland við bakstur og ráðleggingar,“ segja þær um bókin sem fengið hefur frábærar viðtökur sem segir bæði margt um bókina og þær vinsældir sem veganismi nýtur hérlendis. Saga þeirra systra er um margt hefðbundin eða eiginlega bara frekar óspennandi segja þær. Helga María reið á vaðið árið 2011. „Það var í kjölfar heilsufarsvandamála. Ég hafði fengið einkirningasótt þegar ég var enn í grunnskóla og ónæmiskerfið var í molum. Ég fór að lesa mér til um ónæmiskerfið og hvernig ég gæti styrkt það. Þá datt ég inn á við viðtal við stelpu sem hafði tekið heilsuna föstum tökum og hætt neyslu allra dýraafurða. Það reyndist henni vel og ég ákvað að prófa. Fyrst ætlaði ég bara að sleppa dýraafurðum á virkum dögum en strax fyrstu helgina fann ég að ég hafði ekki þörf fyrir þær. Síðan þá hef ég verið vegan. Hjá mér kom siðferðis- og umhverfislega hliðin síðar.“

Ári síðar flutti Júlía Sif inn til systur sinnar og ákvað að prófa. „Ég er mikil matarkona og ætlaði að verða kokkur. Einhvern veginn fékk Helga mig til að prófa og eftir það varð ekki aftur snúið. Það var engin sérstök ástæða fyrir því og ég tek undir með Helgu að siðferðis- og umhverfis rökin hafi fylgt í kjölfarið.“

Á þessum tíma var fátt um fína vegandrætti í verslunum og veitingastöðum. „Vá, ég veit ekki hversu mörg vond salöt við höfum borðað á veitingastöðum eða hversu mikið af þurru byggi,“ segja þær hlæjandi. „Þetta var merkilega ómerkilegur matur þarna í upphafi. En þá varð maður að vera dáldið klókur og elda frá grunni. Þannig lærðum við alveg rosalega mikið og prufuðum okkar áfram sem hefur nýst okkur vel. Í dag er þetta allt öðruvísi og úrvalið sem er í boði allt annað. Bæði af tilbúnum réttum og hráefnum. Veitingastaðir eru líka allflestir með veganrétti á matseðlinum. Þetta hefur breyst alveg svakalega mikið til hins betra en þegar við hugsum til baka þá var þetta hálfgerð píslarganga,“ segja þær hlæjandi.

Margir halda að veganismi sé í raun ein tegund mataræðis sem allir eru á en því fer fjarri. Veganismi sem slíkur er einfaldlega lífsstíll sem inniheldur ekki dýraafurðir en hefur síðan ólíkar birtingamyndir – ef svo má að orði komast. „Það er bæði hægt að borða hollan og óhollan veganmat sem er töluverð breyting frá því sem var. Það er líka hægt að fá dýran og ódýran mat. Þetta er allur skalinn,“ segja þær systur en spurðar hvað þær borði segja þær vikumatseðilinn sinn vera ósköp hefðbundinn.

Fyrstu skrefin skrítnust

Við erum svo vanaföst að tilhugsunin um að breyta algjörlega um mataræði virðist mörgum óyfirstíganleg. Þær systur segja þó að það þurfi engar öfgar. Gott sé að próf sig áfram til að byrja með, jafnvel taka þetta í skrefum. Allt sé betra en ekkert frá sjónarhorni aktívismans. Þetta er ákvörðun sem tekin er með hjartanu að mörgu leyti og því er mikilvægt að fólki líði vel með eigin ákvarðanir.

Þær systur halda úti vinsælli bloggsíðu sem kallast Veganistur. Þar er að finna mikinn fjölda veganuppskrifta og hefur bloggsíðan hjálpað mörgum – þá ekki síst þeim sem eiga ættingja eða vini sem eru vegan og vilja elda fyrir þá.

Ljóst er að veganismi er á hraðri uppleið og þeim fjölgar stöðugt sem kjósa að tileinka sér þennan lífsstíl. Þær systur eru hið minnsta í fararbroddi og með þessari frábæru bók ætti hver sem er að vera í öruggum höndum er hann stígur sín fyrstu skref í átt að dýraafurðalausu lífi.

Þær Helga María og Júlía Sif verða með útgáfuboð á Slippbarnum kl. 17.30 í dag og að sjálfsögðu verða vegan-veitingar í boði. Allir velkomnir.

Úr formála bókarinnar

Fyrstu árin eftir að við gerðumst vegan fór mikil orka í að sýna fólkinu okkar að það vær ekkert mál að vera vegan. Það gerðum við með því að mæta með gómsæta vegan-rétti í matarboð og veislur og leyfa fjölskyldu og vinum að smakka. Oftar en ekki þótti fólki meira spennandi að sjá hvað við mættum með í matarboðið en maturinn sem borinn var á borð fyrir hina. Þetta þótti okkur gaman og þá aðallega að sjá hvernig svipurinn á fólki breyttist þegar það smakkaði matinn okkar og áttaði sig á því að vegan-matur er langt frá því að vera bragðlaus og óspennandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »