Heilsuhorn Kaju: Þjóð sem er leiðandi í lífrænni ræktun

Karen Jónsdóttir
Karen Jónsdóttir Árni Sæberg

Maður myndi halda að þessi fyrirsögn ætti við um Ísland en svo er því miður ekki. Þjóð sem er leiðandi í lífrænni ræktun er fyrirsögn sem á við um frændur okkar Dani. Danskir neytendur og dönsk stjórnvöld hafa tekið höndum saman og sett sér það takmark að Danmörk verði fyrsta ríki heims sem verði 100% lífrænt. En af hverju og til hvers spyrja margir? Í hugum Dana er þetta ofureinfalt. Landið er lítið, íbúar margir og hvað gerir maður þá? Jú, við sköpum ramma sem nýtir landið og auðlindirnar þannig að heildarframlegð verði sem mest um ókomna tíð. Þess má jafnframt geta að íbúar danska ríkisins eru skilgreindir sem auðlind enda lifa Danir að stórum hluta til af hugverki. Hugverk kemur frá einstaklingi sem er m.a. hraustur, heilbrigður og líður vel, en svo að það megi vera þarf að fæða einstaklinginn á sem bestan hátt og það er hluti af planinu. Dönsk stjórnvöld hafa nefnilega sett það sem markmið að í ár verði í öllum ríkismötuneytum boðið upp á 75% lífræna fæðu. Danir eru nefnilega búnir að átta sig á því að eiturefna- og áburðarnotkun í ræktun matvæla gerir engum gagn til lengri tíma litið heldur eru það skammtímasjónarmið sem ráða þar ríkjum.

Skiptiræktun í stað áburðarnotkunar er hluti af lífrænni ræktun og hefur hún reynst betri þegar horft er á heildarhagsmuni. Áburðarleifar renna út í haf, sem eykur vöxt á þörungum sem eru mjög frekir á súrefni, sem aftur skaðar lífríki sjávar. Þetta gerðist í Svíþjóð í kringum 1960 þegar fiskurinn „hvarf“ úr Eystrasaltinu.

Eiturefnanotkun í matvælaræktun er stunduð um allan heim og einnig hér á Íslandi. Þau eiturefni sem helst eru notuð eru sveppa-, illgresis- og skordýraeitur og eru sum hver hættulegri en önnur. Fyrstir til að banna illgresiseitrið Roundup voru Danir og það eitt sýnir hversu framarlega þeir eru í umhverfismálum en nýlega hefur Evrópusambandið einnig bannað þetta eiturefni. Aðalástæðan er sú að efnið er talið vera krabbameinsvaldandi auk þess sem það hefur neikvæð áhrif á vöxt taugakerfis í börnum. Næsta skref er því að banna matvæli sem innihalda þetta efni eins og erfðabreyttan maís eða háfrúktósa síróp. Þess má geta að Roundup hefur verið notað hérlendis af Vegagerðinni og mælt er með því og sambærilegum efnum m.a. til að fella kartöflugrös á haustin.

Maður hlýtur að spyrja sig af hverju lítið og fámennt land eins og Ísland hafi ekki þennan metnað? Sérstaklega í ljósi þess að við teljum okkur vera hreint land og við markaðssetjum okkur á þann hátt. Af hverju höfum við ekki eins háleit markmið og Danir? Af hverju verðum við ekki fyrsta landið til þess að verða lífrænt? Af hverju verður Vesturland ekki fyrsti fjórðungurinn til þess að vera lífrænn? Við erum sennilega landið sem gæti framkvæmt það á hvað skemmstum tíma og með hvað minnstri fyrirhöfn. Af hverju erum við ekki fremst þegar kemur að því að hugsa um auðlindir okkar og nýtingu þeirra fyrir komandi kynslóðir? Það yrði nefnilega ekki svo flókið og afraksturinn yrði ómetanlegur.

Lífrænar kveðjur,

Kaja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert