Keto pizza með chorizo, klettasalati og parmesan

Ljósmynd/Valla

Hún Valla er hluti af öflugu matarbloggarateymi á GRGS.is sem er (eins og alþjóð veit) í umsjón eldhúsgyðjunnar Berglindar Guðmundsdóttur.

Valla segist hafa prófa alls konar lágkolvetnapizzubotna en þessi sé í algjöru uppáhaldi en hún kallar hann klassíska blómkálsbotninn.

„Hann er frekar fljótlegur, svona miðað við að það þarf ekkert að hefa eða neitt slíkt. Einnig finnst mér mikill kostur við blómkálið að hafa trefjarnar auk þess sem heildarhitaeiningafjöldi er lægri en í öðrum keto botnum líkt og þegar “fat head”-deig er notað.

Osturinn sem ég nota hér er mozzarella frá Örnu en hann inniheldur auðvitað engin kolvetni. Mér finnst hann henta sérlega vel í þennan botn þar sem hann bráðnar vel en heldur samt nógu stöðugur í botninum.“

Keto pizza með chorizo, klettasalati og parmesan

 • 1 miðlungs stórt blómkálshöfuð
 • 150 g mozzarella með pipar frá Örnu
 • 1 egg
 • ¼ tsk. sjávarsalt
 • ¼ tsk. hvítlauksduft
 • ½ tsk. oregano
 • Chorizo-pylsa í sneiðum
 • Rifinn mozzarella frá Örnu
 • Klettasalat
 • Parmesan-ostur

Heimagerð sykurlaus pizzasósa

 • 1 dós saxaðir tómatar
 • ¼ tsk. hvítlauksduft
 • ¼ tsk. sjávarsalt
 • ½ tsk. oregano
 • ½ tsk. basilika þurrkuð
 • chiliduft á hnífsoddi

Setjið tómatana í sigti og leyfið svolitlu af vökvanum að renna af. Setjið allt í matvinnsluvél eða blandið með töfrasprota. Þá er sósan bara tilbúin!

Leiðbeiningar

1. Hakkið blómkálið mjög smátt í matvinnsluvél, þar til það er orðið að fíngerðum blómkálsgrjónum

2. Setjið blómkálið í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið á hæsta hita í 5-6 mín.

3. Takið skálina út, passið ykkur að vera í ofnhönskum! Setjið blómkálið á hreint viskustykki og kælið aðeins. Pakkið blómkálinu inn í viskustykkið og vindið upp á það. Reynið að vinda allan vökva úr kálinu. Því þurrara sem það er því betra.

4. Setjið blómkálið í skál og bætið við osti, eggi og kryddum. Hrærið vel saman, mér finnst gott að nota hendurnar til þess að hnoða þessu saman.

5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu, setjið deigið á plötuna og mótið pizzabotn sem er sirka 12 - 14.

6. Hitið ofninn í 220°C og bakið botninn í 15 mín. Takið botninn út og snúið honum við og bakið áfram í 3 mín.

7. Takið botninn út úr ofninum og setjið sykurlausa pizzasósu, mozzarella frá Örnu eftir smekk og raðið chorizo-sneiðum ofan á.

8. Setjið aftur inn í ofn og bakið þar til osturinn er orðinn gylltur.

9. Stráið klettasalati eftir smekk yfir pizzuna og rífið parmesanost yfir.

Ljósmynd/Valla
Ljósmynd/Valla
mbl.is