Geggjaður rjómalagaður ketókjúklingur

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Algjörlega skotheld uppskrift hér á ferð frá Gott í matinn. Að venju klikkar Helena Gunnars ekki og útkoman er hreint sælgæti.

Rjómalagaður ketókjúklingur með dijonsinnepi

4 skammtar

 • 800 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • 1 stk. rauðlaukur
 • 1 msk. timían (ferskt eða þurrkað)
 • 1 dl hvítvín (má sleppa og nota bara kjúklingasoð)
 • 2 dl kjúklingasoð (vatn og kjúklingakraftur)
 • 2 dósir sýrður rjómi 36% frá Gott í matinn
 • 2 msk. dijonsinnep (2-3 msk. og gott að nota gróft og venjulegt til helminga)
 • salt og pipar
 • smjör til steikingar
 • fersk steinselja

Aðferð:

 1. Byrjið á að hita pönnu með dálitlu smjöri, kryddið kjúklinginn með salti og pipar og steikið báðum megin þar til vel brúnaður. Setjið á disk og lækkið aðeins hitann á pönnunni.
 2. Steikið laukinn í 2-3 mínútur eða þar til hann mýkist aðeins. Kryddið með timían, salti og pipar.
 3. Hellið hvítvíni og kjúklingasoði á pönnuna, skafið vel botninn og leyfið að sjóða í nokkrar mínútur.
 4. Bætið þá sýrða rjómanum út á ásamt dijonsinnepi. Leyfið aðeins að malla og smakkið til.
 5. Setjið að lokum kjúklinginn út í sósuna og leyfið að eldast í um það bil 10 mínútur við meðalhita.
 6. Stráið ferskri steinselju yfir að lokum og berið fram.

Höfundur uppskriftar er Helena Gunnarsdóttir.

mbl.is