Veitingastaður ákveður að lækka verðið

Á myndinni eru Jón Gunnar Geirdal og Karl Viggó Vigfússon, …
Á myndinni eru Jón Gunnar Geirdal og Karl Viggó Vigfússon, stofnendur Blackbox, ásamt meðeiganda sínum, Jóhannesi Ásbjörnssyni. Ljósmynd/Aðsend

Þetta eru fréttir sem við heyrum ekki á hverjum degi og nú er sannarlega tilefni til að gleðast því pítsumusterið Blackbox hefur breytt matseðli sínum verulega og meðal annars lækkað verð til viðskiptavina sinna. Að auki er boðið upp á frábær fjölskyldutilboð en oft reynist flókið fyrir barnafjölskyldur að fá hagstæð kjör á veitingahúsum.

Að sögn Jóns Gunnars Geirdal, annars stofnanda og eina eigenda Blackbox, er þetta gert í tilefni tveggja ára afmælis staðarins. „Síðustu tvö ár hafa verið magnað ferðalag. Við höfum lært ótrúlega margt og erum farnir að þekkja okkar viðskiptavini mjög vel, sérstaklega þennan frábæra fastagestahóp sem okkur þykir ofboðslega vænt um.“

Blackbox naut frá upphafi mikilla vinsælda þeirra sem kjósa „artisan“ handgerðar pizzur og sækja í þá einstöku stemmningu sem fylgir staðnum. Vorið 2019 opnaði Blackbox sinn annan stað í Háholti í Mosfellsbæ, við hlið Krónunnar.  

„Í tilefni þessara tímamóta ákváðum við að betrumbæta matseðilinn, lækka verðið umtalsvert og einfalda um leið úrvalið á seðlinum. Að sama skapi höfum við sett inn frábær og fjölskylduvæn tilboð. Nú eru bara þrír verðflokkar á Blackbox, undir 2.000 krónum, 2.500 krónu pizzur og 2.900 krónu pizzur. Svo langaði okkur að bæta um betur fyrir nágranna okkar sem koma margir hverjir daglega og nú eru allar pizzur á matseðlinum á aðeins 2.000 krónur í hádeginu, alla daga vikunnar,“ segir Jón Gunnar

Koma til móts við viðskiptavini

Maðurinn á bak við Blackbox-pizzurnar er Karl Viggó Vigfússon, einn stofnenda og eigenda, Viggó eins og hann er kallaður. „Áherslurnar hjá okkur hafa alltaf verið á gæði og hvert einasta hráefni er handvalið af mér sjálfum, eða sérframleitt fyrir okkur eftir okkar gæðakröfum. Parma-skinkan okkar kemur í heilum lærum og er skorin á staðnum í ítalskri skurðarvél ofan á vinsælustu pizzuna okkar, Parma Rucola, sem kostar á nýja matseðlinum okkar aðeins 2.500 krónur. Ég fullyrði að það er besta verð á sambærilegri pizzu hérlendis,“ segir Viggó, sem stendur vaktina daglega á Blackbox-stöðunum. „Að mínu mati eru tvær rokkstjörnur á Blackbox, ofninn okkar einstaki sem eldbakar pizzurnar á aðeins tveimur mínútum og súrdeigsbotninn okkar sem setur þig ekki í sófann að máltíð lokinni,“ bætir Viggó við.

Loksins hægt að panta Blackbox-pizzu á netinu

Ein af nýjungunum á Blackbox í tilefni af tveggja ára afmælinu er eitthvað sem viðskiptavinir hafa kallað lengi eftir, og það er að geta pantað pizzur á netinu og sótt til okkar. Nú er það hægt með einföldum og þægilegum hætti á blackboxpizza.is. „Við hlökkum mikið til komandi tíma á Blackbox, erum þakklát okkar samstarfsfólki og viðskiptavinum og erum spenntir fyrir því að geta boðið þeim pizzurnar sem við erum svo stoltir af á nýju og mun betra verði,“ segir Jón Gunnar að lokum. 

mbl.is