Mánudagsmaturinn: Hin fullkomna píta

Ljósmynd/María Gomez

Pítur eru mögulega besti og einfaldasti matur í heimi. Undirrituð er hið minnsta búin að ganga í gegnum mjög langt tímabil þar sem ég borða pítur 2-3 sinnum í viku. Þá hvort heldur sem er í hádeginu eða á kvöldin. Tæknin hefur verið fullkomnuð þannig að hráefninu sem á að fara í pítuna er fyrst blandað saman í skál og svo er mokað ofan í brauðið sem búið er að hita í brauðrist. Leynihráefnið er snakk. Helst rifflaðar flögur með sýrðum rjóma og lauk. Ég veit að þetta hljómar kannski galið en þetta er dásamlegt! Mitt eina markmið í lífinu í dag er að búa til mína eigin pítusósu sem er nánast hitaeiningasnauð en það bíður betri tíma.

Hér gefur að líta aðra útgáfu af pítu og það er engin önnur en matgæðingurinn María Gomez á Paz.is sem á hana. Hún er með beikon og kjöt í sinni og hún lítur hrikalega vel út.

Hin fullkomna píta

  • Hatting-pítubrauð 
  • Hamborgarakjöt (1-2 á mann)
  • 250 gr. sveppir 
  • 1 pakki af ósteiktu beikonkurli 
  • Pítusósa 
  • kínakál (ég sver það er langbesta kálið á pítuna)
  • Rauð paprika 
  • Gúrka 
  • Piccolo-tómatar 
  • rauðlaukur 

Aðferð

  1. Steikið hamborgarana og saltið vel og piprið og notið gott hamborgarkrydd líka ef þið eigið
  2. Ristið pitubrauðin en mér finnst best þegar þau eru mjúk en sumum finnst betra stökk
  3. Skerið niður allt grænmeti smátt 
  4. Skerið sveppina niður mjög smátt og setjið á pönnu ásamt beikonkurlinu 
  5. Steikið saman þar til allt vatn er farið af pönnunni og þetta er að verða svona krispý en ekki of krispý samt 
  6. Svo raðið þið á pituna því sem þið viljið af þessu en mér finnst best að hafa þetta allt, s.s hamborgarakjöt, kál, tómata, gúrku, papriku, beikonsveppakurl, pítusósu og rauðlauk 

Punktar

Ég mæli með 1-2 pítum á mann en það eru 6 brauð í pakkanum frá Hatting. Eins og ég sagði þá nota ég buff eða svona hamborgarkjöt í pítuna og ég mæli með því að gera það frekar en hakk út af sveppabeikonkurlinu sem er eiginlega smá eins og hakk. Einnig mæli ég með að þið notið kínakál í stað annars káls á pítuna en það gerir einhverja töfra með pitusósunni.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert