Besta leiðin til að þrífa parket

Ljósmynd/Colourbox

Parket er töluverð fjárfesting og því borgar sig að fara vel með það til að halda því fallegu og heilu eins lengi og kostur er.

Ef parketið er lakkað skal sópa eða rykmoppa eftir þörfum. Nota skal milda sápu í vatn og þurrvinda moppuna vel. Mikilvægt er að láta alls ekki bleytu liggja á lökkuðu parketgólfi. Ef bóna á gólfið skal nota annaðhvort vatnsuppleysanlegt eða vaxbón. Mikilvægt er þó að bóna gólfið ekki of oft og ef gólfið er orðið mjög slitið þarf að pússa það upp og lakka að nýju.

Ef parketið er olíu- eða vaxborið skal rykmoppa reglulega. Eigi að moppa yfir með rökum klút skal nota grænsápu eða sérstaka parketsápu sem er feit því fitan mettar gólfborðin. Sá böggull fylgir skammrifi að nauðsynlegt er að olíu- eða vaxbera gólfið reglulega því annars eiga þau til að þorna eða verða mislit.

Ef þú ert með plastparket þolir það alla jafna meira hnjask. Ekki bleyta gólfið mikið heldur nota volgt vatn og þurrka jafnóðum. Notið helst þurra moppu eða ryksugu.

Ryksugur eru líka góðar en passið að nota rétta stillingu á ryksuguhausnum og oftar en ekki fylgir sérstakur parkethaus með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert