KFC prufukeyrir EKKI kjúklingaborgara um helgina

Ljósmynd/Aðsend

Nú er væntanlegur á matseðil KFC kjúklingaborgari án kjúklings. Fyrirmyndin er hinn eini sanni Original-kjúklingaborgari sem flestir þekkja vel og fleiri vilja njóta. KFC mætir fjölbreyttari matarvenjum veraldarinnar með valkosti fyrir fólk sem ekki borðar kjöt eða dýraafurðir.

Markmiðið er að EKKI kjúklingaborgarinn verði kominn á matseðilinn á komandi mánuðum. Vöruþróun er þegar lokið og komið að því að athuga hvað fólki finnst. Nýjungagjarnir geta því freistað þess að smakka hann föstudaginn 31. janúar en þá verður borgarinn til sölu í mjög takmörkuðu magni þennan eina dag og aðeins á KFC í Sundagörðum. Starfsfólk mun þá hlusta á umsagnir gesta og ræða tillögur og ábendingar í framhaldinu. Staðurinn opnar klukkan 11:00 og rétt að hvetja fólk til að mæta tímanlega.

Þótt Original EKKI kjúklingaborgarinn falli undir vegetarian-mataræði er mæjóið þó það eina sem inniheldur dýraafurðir af einhverju tagi. KFC býður því upp á vegan-mæjó í stað þess hefðbundna sé þess óskað og þá er borgarinn orðinn vegan. Þess er síðan gaumgæfilega gætt að hráefni, áhöld og steikingarolía komist hvergi í snertingu við önnur matvæli sem innihalda dýraafurðir og þannig kemur ekki til krossmengunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert