Food&fun-matarhátíðin haldin í 19. sinn

Frá Food & Fun hátíðinni í fyrra.
Frá Food & Fun hátíðinni í fyrra. Eggert Jóhannesson

Matarháíðin Food&fun verður haldin í 19. sinn á veitingastöðum Reykjavíkur dagana 4.-8. mars næstkomandi. Fjöldi erlendra matreiðslumanna mun starfa við hlið íslenskra kollega sinna þessa helgi auk þess að keppa um titilinn besti kokkur hátíðarinnar. Í fyrra voru gestakokkarnir rúmlega 20 talsins.

Á síðasta fundi borgarráðs var samþykkt samkomulag borgarinnar við Main Course ehf. þess efnis að borgin styrki hátíðina um 2,5 milljónir á þessu og næsta ári, eða alls um fimm milljónir. Þessa peninga á m.a. að nota til að standa straum af kostnaði við að kynna hátíðina.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði bókuðu að matarhátíðin hefði farið fram í Reykjavík um árabil. Gestir á hverju ári væru um 12.000-15.000 af öllu þjóðerni. „Borgin hefur nær alltaf styrkt hátíðina enda er hún ein þeirra hátíða sem laða að gesti og íbúa inn á veitingastaði borgarinnar. Matarmenning í Reykjavík hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum og hefur þessi meirihluti reynt að lyfta því sem vel er gert í matarmenningu og stuðla að því að Reykjavík geti státað af því að vera matarborg. Hvort sem það er Matarhátíð alþýðunnar sem fram fer á Skólavörðustíg, Street Food-götubitahátíðin á Miðbakkanum eða Food&Fun-hátíðin, þá stuðla þær allar að bættri matarmenningu í Reykjavík og gera þannig borgina að eftirsóttum stað til að búa á og heimsækja.“

Þeir Sigurður Hall matreiðslumeistari og Baldvin Jónsson athafnamaður voru hvatamenn að stofnun Food&fun-matarhátíðarinnar á sínum tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert