Sunnudagslax í hvítlauksrjómasósu með sólþurrkuðum tómötum

Ljósmynd/Linda Ben

Þessi réttur er svo mikil alslemma að það er leitun að öðru eins. Fljótlegur, einfaldur og syndsamlega bragðgóður. Hann kemur úr smiðju Lindu Ben sem, eins og flestir vita, klikkar aldrei.

Lax í hvítlauksrjómasósu með sólþurrkuðum tómötum

 • 800 g lax
 • 2 msk. ólífuolía
 • ½ laukur
 • 4-5 hvítlauksgeirar
 • 1 appelsínugul paprika
 • 150 g sólþurrkaðir tómatar
 • 180 g kirsuberjatómatar
 • 300 ml rjómi
 • 100 g spínat
 • Salt og pipar

Aðferð:

 1. Byrjið á því að krydda laxinn með salti og pipar, setja olíu á pönnuna og steikið fiskinn með roðið niður þar til hann er u.þ.b. eldaður í gegn, það er gott að setja lok á pönnuna svo hann eldist örlítið hraðar. Takið laxinn af pönnunni en haldið olíunni og því á pönnunni áfram.
 2. Skerið laukinn smátt niður og steikið hann á pönnunni, bætið við olíu eftir þörfum. Skerið hvítlaukinn og paprikuna líka niður og steikið. Skerið sólþurrkuðu tómatana niður og bætið þeim á pönnuna ásamt heilum kirsuberjatómötum.
 3. Bætið rjóma á pönnuna ásamt spínatinu og blandið öllu saman. Kryddið með salti og pipar og leyfið að malla í smá stund. Setjið laxinn aftur á pönnuna og hitið hann upp. Berið fram með hýðishrísgrjónum.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is