Svona færðu heimilið til að ilma dásamlega

Þessi kona er búin að finna sitt trix að góðum …
Þessi kona er búin að finna sitt trix að góðum heimilisilm. mbl.is/Colourbox

Það jafnast ekkert á við góðan ilm, og þá sérstaklega á heimilinu. Hér eru nokkur ráð um hvernig þú færð heimilið til að ilma þannig að nágrannarnir öfundi þig. Góður heimilisilmur er nefnilega vanmetinn — svona ferskur ilmur sem minnir á nýslegið gras. Það getur einungis kallað á góðar tilfinningar og vellíðan.

Kryddjurtir
Eitt einfalt ráð er að draga fram þær kryddjurtir sem þú átt til á heimilinu og sítrónuskífur. Settu lítið vatn í pott ásamt sítrónuskífum og kryddjurtum — jafnvel lavander eða myntu. Leyfðu suðunni að koma upp. Hitinn og vatnið sem sýður í pottinum mun dreifa ilminum um allt húsið.

Náttúran heim í stofu
Plöntur og blóm geta hreinsað loftið á heimilinu. En trjágreinar og blóm sem þú finnur úti í náttúrunni eru ekki bara falleg á að líta því ilmurinn sem þeim fylgir er einnig einstakur og ferskur. Litríkur blómvöndur er alltaf nærandi.

Loftaðu út
Númer eitt, tvö og þrjú er að lofta út. Það er mikilvægt fyrir heilsuna þína og líka heimilið að „viðra heimilið“ svo það myndist t.d. ekki raki í veggjum og gluggum. Og það gildir einnig á veturna, en spekúlantar vilja meina að maður eigi að lofta út í það minnsta 10 mínútur á dag.

Kertaljós
Það er dásamlegt að kveikja á kertum í skammdeginu og ekki skemmir fyrir ef kertin senda frá sér góðan ilm í leiðinni. Gott ráð er að staðsetja ilmkerti í horninu á rýminu til að ilmurinn verði ekki of yfirgnæfandi. Og passið að kveikja ekki á mörgum ilmkertum í einu og þá sérstaklega ekki með ólíkum ilmum.
Eitt gott ráð er að setja ilmkerti inn í fataskáp, þá án þess að kveikja á því. Og leyfa því að standa þar inni í smá tíma og senda ilminn í efniviðinn.

Heimabakstur
Ekkert slær út ilminn af nýbökuðum bollum eða köku. Þann ilm er erfitt að standast. En þú þarft ekki að leggjast í stórbakstur til að framkalla slíkan ilm, því tilbúið kökudeig er allt sem til þarf.

Fersk blóm og greinar gefa alltaf frá sér góðan ilm.
Fersk blóm og greinar gefa alltaf frá sér góðan ilm. mbl.is/Colourbox
mbl.is