Einfaldar og ódýrar lausnir fyrir eldhúsið

Stundum þarf ekki meira en að mála til að eldhúsið …
Stundum þarf ekki meira en að mála til að eldhúsið fái upplyftingu. mbl.is/iStock

Það þarf ekki að kosta heil árslaun að gefa eldhúsinu andlitslyftingu. Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig megi fá „nýtt“ eldhús á einfaldan hátt.

Nýjar framhliðar á sökklana
Sökklarnir á eldhúsinnréttingunni verða fyrir meira hnjaski en okkur grunar. Þeir taka við alls kyns skít og drasli og síðan rekum við ryksuguna stanslaust í kantinn þegar við tökum heimilisþrifin. En við þrífum kannski sökkulinn sjálfan ekki svo oft. Það lyftir heilmiklu að skipta um sökkul, setja jafnvel nýjan lit eða stálplötu.

Flísar
Ef þú ert ekki nú þegar með flísar á milli eldhússkápanna er kannski ráð að setja þannig upp. Það auveldar öll þrif á veggnum og möguleikarnir eru endalausir. Leiktu þér með að búa til munstur úr flísunum og gerðu eldhúsið að þínu. Eins getur þú pússað upp efsta lag á núverandi flísum og málað yfir í hressandi lit.

Efri skápar vs. opnar hillur
Efri skápar geta virkað þungir að sjá í sumum eldhúsum. Ein hugmynd er að taka niður skápana og setja opnar hillur í staðinn – það gefur léttara yfirbragð.

Ný handföng
Það mun koma þér verulega á óvart hversu mikil breyting það er að skipta um höldur á innréttingunni. Veldu þinn persónulega stíl hvort sem um postulín, leðurband, gler eða keramíkhöldur er að ræða.

Nýjar framhliðar
Þú þarft ekki að kaupa heilt eldhús til að breyta til þegar innvolsið er alveg heilt og fínt. Skiptu út skápahurðunum eða málaðu framhliðarnar. Þú munt fá milljón króna eldhús fyrir lítinn pening.

Ný ljós
Góð lýsing í eldhúsi er vandmetin. Við þurfum að hafa gott vinnuljós á meðan við matreiðum og því er upplagt að skipta út gömlu ljósunum sem fyrir eru. Prófaðu að velja litrík ljós ef þú ert með alveg hvítt eldhús – það gefur skemmtilegan karakter.

Borðplatan
Við þurfum ekki að selja þessa hugmynd of mikið, því ekkert jafnast á við fallega borðplötu. Ef þín er orðin slitin og ljót er þetta kannski málið. Skoðaðu úrvalið því það finnast borðplötur í öllum gerðum og verðflokkum.

Málaðu veggina
Kannski er þetta það sem þarf til að fríska upp á eldhúsið. Að mála veggina!

Skiptu um krana
Vaskurinn og kraninn í eldhúsinu eru algjör miðja. Veldu krana með messingáferð ef þú vilt glamúr, eða svartan krana til að halda í naumhyggjustílinn.

Fylltu eldhúsið af grænblöðungum
Ekki vera smeyk/ur um að hleypa plöntum inn í eldhús – það er hér sem allar plöntur og kryddjurtir eru velkomnar. Prófaðu jafnvel að útbúa plöntuvegg, það kemur rosalega vel út.

Þú getur prófað að hengja upp eldhúsáhöld eða kryddjurtir á …
Þú getur prófað að hengja upp eldhúsáhöld eða kryddjurtir á veggina ef þig langar að breyta til. mbl.is/iStock
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert