Svona mýkir þú smjör á augabragði

Það tekur smjör um klukkutíma að ná stofuhita en við …
Það tekur smjör um klukkutíma að ná stofuhita en við kunnum trix til að flýta fyrir ferlinu. mbl.is/Colourbox

Flest okkar hafa lent í því að lesa ekki alveg uppskriftina í gegn áður en við byrjum að baka og smjörið er allt of hart. Það tekur í kringum klukkutíma fyrir smjör að ná stofuhita ef þú leggur það á eldhúsborðið.

Við ættum að vita að í flestöllum bakstri er notast við smjör við stofuhita en virðumst samt alltaf gleyma því. En hvað er til ráða þegar löngun í súkkulaðibitakökur grípur yfirhöndina og eina sem stendur í vegi fyrir bakstri er allt of kalt smjör?

Þá dregur þú einfaldlega fram hníf og skerð smjörið í litla bita og setur á disk. Með þessu móti sparar þú í það minnsta þrjú kortér af annars einum klukkutíma sem það tekur fyrir smjörið að mýkjast.

Ef þú ert svo óþolinmóð/ur að þú getir ekki beðið í um það bil kortér er ráð að setja diskinn inn í örbylgjuofn á lægstu stillingu. Og þá bara í nokkrar sekúndur í einu. Hér ber þó að varast, því þú gætir óvart brætt smjörið í staðinn fyrir að mýkja það.

mbl.is/Colourbox
mbl.is