Kótilettur með púðursykri, hvítlauk og kryddjurtum

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Hver elskar ekki kótilettur? Því miður eru góðar kótilettuuppskriftir allt of sjaldgæfar en minnisstæðastar eru kótiletturnar hennar ömmu minnar sem hún hjúpaði með matarkexi. Hér er það Berglind Guðmunds á GRGS sem býr til sjúklega girnilegar kótilettur sem eru eiginlega skyldusmakk. Hún notaði grísakótilettur í þessa uppskrift en segir að það skipti litlu hvaða kjöt sé notað. Lamb eða naut séu alveg jafn góð.

Kótilettur með púðursykri, hvítlauk og kryddjurtum

  • 4 kótilettur
  • 1 dl púðursykur (eða kókossykur)
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 tsk. oregano
  • 1 tsk. timían
  • salt og pipar
  • 4 msk. smjör

Aðferð:

1. Kryddið kótiletturnar með salti og pipar. Setjið 2 msk. af smjöri á pönnuna og brúnið kótiletturnar á hvorri hlið í 1-2 mínútur. Takið af pönnunni og setjið í ofnfast mót.

2. Setjið 2 msk. af smjöri, púðursykur, pressaðan hvítlauk, oregano og timían á heita pönnuna og blandið saman.

3. Þegar smjörið er bráðið og blandan orðin að mauki hellið henni þá yfir kótiletturnar.

4. Setjið í 200°C heitan ofn í 5-10 mínútur (fer eftir þykkt kjötsins).

mbl.is