Ein rosalegasta marengsterta síðari ára

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Olræt. Fyrst það er hvort eð er krónískur vetrarvibbi í loftinu er allt eins gott að baka bara góða köku. Eins og þessa hér sem Berglind Guðmunds á GRGS á heiðurinn að. Hér erum við að tala um kókosbollurjóma - sem flestir vita að er betri en flest annað í lífinu. Dáldið eins og Pitt og Aniston. Þau eru bara betri saman.

En nóg um það.... hér er kakan:

Þriggja hæða marengsterta með kókosbollurjóma

Rice Krispies marengs

  • 6-7 eggjahvítur
  • 200 g sykur
  • 2 bollar Rice Krispies

Kókosbollurjómafylling

  • 1 lítri 36% rjómi frá Örnu
  • 6 kókosbollur
  • 3 Daim, söxuð smátt
  • ½ kg jarðaber

Leiðbeiningar

1. Marengs: Þeytið eggjahvítur og bætið sykri smátt og smátt saman við. Þeytið í 5 mínútur eða þar til marengsinn er orðinn stífur.

2. Hrærið Rice Kripsies varlega saman við með sleif.

3. Teiknið 3 mismunandi stóra hringi á smjörpappír. Stór sem fer neðst, minni og svo minnsti botninn sem fer efst.

4. Látið í 130°C heitan ofn í 90 mínútur.

5. Þeytið rjómann og skerið jarðaberin niður. Blandið rjóma, jarðaberjum, kókosbollum og Daim saman í skál.

6. Setjið stærsta botninn á kökudisk, ráði kókosbollurjómann yfir og endurtakið með hina botnana.

7. Skreytið með berjum, myntulaufum og stráið flórsykri yfir allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert