Kokkalandsliðið hlaut önnur gullverðlaun

Kokkalandsliðið gerði frábæra hluti í Stuttgart.
Kokkalandsliðið gerði frábæra hluti í Stuttgart. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska kokkalandsliðið vann til tvennra gullverðlauna á Ólympíuleikum matreiðslumeistara í Stuttgart í Þýskalandi en seinni keppnisgreinin af tveimur fór fram í gær.

Liðið keppti í „Hot Kitchen“ í gær og í morgun var liðinu kynnt niðurstaðan sem var annað gullið í keppninni og því lauk liðið keppni með því að taka gull í báðum sínum keppnisgreinum.

Liðið hefur á síðustu árum raðað inn gullverðlaununum á alþjóðlegum mótum sem hefur tryggt því stöðu eins fremsta landsliðs í heimi, að því er segir í tilkynningu.

„Ég er ótrúlega ánægður og þakklátur. Landsliðið hefur lagt ótrúlega mikið á sig bæði í undirbúningi og keppninni hérna úti og þau uppskera glæsilega,“ segir Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumanna, sem er úti í Stuttgart með liðinu. „Þetta hefði þó ekki verið hægt án allra þeirra sem leggja okkur lið við að komast hingað út. Ég verð sérstaklega að þakka Matarauði, Íslandsstofu, Ísey skyri og MS sem hafa verið með okkur í þessu verkefni og gert okkur kleift að ná þessum árangri.“

Kokkalandsliðið hefur æft stíft síðustu 8 mánuði fyrir keppnina. Hátt í fjögur tonn af búnaði voru send til Þýskalands en liðið þarf að setja upp fullbúið eldhús á keppnisstaðnum. Þá er ótalið það hráefnið sem flytja þarf á staðinn en kokkalandsliðið leggur áherslu á að nota sem mest af hágæða íslensku hráefni í matargerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert