Búið að betrumbæta einn merkilegasta borgara landsins

Íslensk hamborgarasaga er sneisafull af stórmerkilegum hamborgurum en það eru fáir sem eru jafn greyptir í þjóðarsálina og borgararnir á American Style. Staðurinn fagnar 35 ára starfsafmæli sínu um þessar mundir og af því tilefni fá allir staðirnir veglega yfirhalningu auk þess sem meistarakokkarnir Viktor Örn og Hinrik Lárusson endurhönnuðu hinn svokallaða Stælborgara.

Að sögn þeirra félaga er helsta breytingin fólgin í því að borgarinn er nú umtalsvert kjötmeiri og vegur nú 120 g í stað 90 g. Eins var fitumagnið í kjötinu aukið og er nú 20%. Þá var borgarinn settur í nýtt og enn mýkra hamborgarabrauð.

Glænýtt útlit á Stælnum í Skipholti

American Style var opnaður í Skipholti 15. júní 1985 og verður því 35 ára í ár. Það gerir hann að elsta starfandi hamborgarastað landsins. „Allir Íslendingar þekkja gamla góða Stælinn og eiga minningar þaðan. Á 35 ára afmælisárinu fannst okkur tími til kominn að gera breytingar á útliti staðarins og á sjálfum hamborgaranum,” segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.

Allir Stælstaðirnir í nýjan búning á næstu misserum

Nú þegar breytingum er lokið í Skipholti verður hafist handa við að breyta hinum Stælstöðunum þremur. „Við ætlum næst í Hafnarfjörðinn, svo á Nýbýlaveginn, og svo endum við á Bíldshöfðanum. Markmiðið er að allir staðirnir verið komnir í nýja útlitið fyrir árslok 2020,” segir Jóhannes. 

Jóhannes Ásbjörnsson.
Jóhannes Ásbjörnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is