Omnom ástarbollur með hindberja lakkrísmús

Ljósmynd/Omnom

Eins og alþjóð veit er bolludagur handan við hornið og samkvæmt venju skelltu súkkulaðisjeníin í Omnom í eina bollu sem verður að kallast tímamóta enda innblásnar af nýja ástarsúkkulaðinu Lakkrís + Raspberry.

Hægt verður að smakka þessar girnilegu bollur á laugardaginn í verslun Omnom í tilefni af konudeginum. Einnig verður hægt að kaupa einstaka konudagsgjöf í samstarfi við Pastel blómastúdío. Opið milli 12-16

Omnom ástarbollur með hindberja lakkrísmús -  uppskrift

Kex

 • 255 gr smjör, við stofuhita
 • 300 gr ljós púðursykur
 • 300 gr hveiti
 • 1/2 tsk. rauður matarlitur

Aðferð:

 1. Hrærið saman í hrærivél smjör, púðursykur og matarlit þar til létt og ljóst
 2. Bætið við hveitinu í  3x skömmtum
 3. Rúllið út deigið með kökukefli í ca 0.5 cm þykkt og kælið
 4. Stingið út með útstungunarjárni ca 4 cm hring 

Vatnsdeigsbollur - ca. 15 stk.

 • 200 gr vatn
 • 200 gr mjólk
 • 200 gr smjör
 • 5 gr salt
 • 10 gr sykur
 • 200 gr hveiti, sigtað
 • 5 egg

Aðferð:

 1. Hitið ofninn við 180°c
 2. Setjið saman í pott vatn, mjólk og smjör og hitið þar til smjörið er bráðnað, passið að sjóða ekki.
 3. Bætið við salti og sykri.
 4. Að lokum kemur hveitið varlega út í og gott að nota hitaþolna sleikju til að blanda því saman við.  Sláið saman í pottinum þar til deigið er komið með fallegan gljáa og losnar auðveldlega frá. Setjið í hrærivélarskál og hrærið saman
 5. Bætið eggjunum, eitt í einu. Gott er að bæta þeim við á 30 sek fresti.  
 6. Leyfið deiginu að koma saman í vélinni og setjið svo í sprautupoka. 
 7. Festið bökunarpappír á ofnplötu með smá deigi, með því að sprauta í hornin og leggja pappírinn yfir
 8. Sprautið deiginu í 4 cm bollur og gerið ráð fyrir 3 cm bili á milli.
 9. Leggið kexdeigshringin ofan á hverja bollu 
 10. Bakið í ca15-20 mín
 11. Leyfið bollunum alveg að kólna áður þær eru fylltar

Fylling

Omnom Lakkrís-hindberjasúkkulaðimús

 • 125 gr rjómi
 • 20 gr hunang
 • 60 gr Omnom Lakkrís + Raspberry súkkulaði, saxað
 • 250 gr rjómi, kaldur
 • 7 msk hindberjasulta

Aðferð:

 1. Sjóðið 125 g af rjómanum með hunangi og  hellið yfir súkkulaðið, blandið vel með töfrasprota, þar til ein falleg heild
 2. Blandið með 250 gr af rjóma út í
 3. Kælið vel 3-4 tíma
 4. Þeytið, líkt og þið væruð að þeyta rjóma, í hrærivél (passa að ofþeyta ekki) 
 5. Setjið súkkulaðimúsina og hindberjasultuna í sitthvorn sprautupoka
 6. Stingið lítið gat undir hverja bollu, nógu stórt fyrir stútin á sprautupokanum 
 7. Fyllið fyrst með ca 1/2 msk af hindberjasultu og svo með súkkulaðimúsinni þar til alveg full.
 8. Einnig má skera bolluna í tvennt og fylla á gamla mátann
 9. Bollurnar má setja ínn í kælir í 3-5 klst og er best að borða þær samdægurs
Ljósmynd/Omnom
mbl.is