Leynitrix Kristínar Ýrar sem öllu breytir

Kristín Ýr ásamt Freydísi dóttur sinni.
Kristín Ýr ásamt Freydísi dóttur sinni. Eggert Jóhannesson

Kristín Ýr Gunnarsdóttir, almannatengill og ofurkona með meiru, hefur eytt megninu af febrúarmánuði á hlaupum — bókstaflega. Hún setti sér það markmið að hlaupa 100 kílómetra til styrktar Einstökum börnum en dagur sjaldgæfra sjúkdóma er haldinn hátíðlegur á laugardaginn en þá er einmitt sjáldgæfasti dagurinn — 29. febrúar.



Kristín er óstöðvandi þegar kemur að útivist og þeir sem til hennar þekkja hafa dáðst að dugnaðinum í henni og eljunni undanfarin ár enda sést vart mynd af henni án þess að hún sé hlaupandi, hjólandi eða að framkvæma eitthvað óheyrilega sniðugt. Hún hefur líka verið ötul við að vekja athygli á brotalömum í kerfinu og hvernig megi styðja betur við fjölskyldur sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma en sjálf hefur hún tekist á við kerfið frá því yngsta dóttir hennar, Freydís var greind með Williams-heilkenni.

Okkur lék forvitni á að vita hvað svona kona eins og Kristín borðar til að halda sér gangandi og eins og við mátti búast af Kristínu þá lumar hún á ýmsum leyndarmálum. Aðspurð að því hvð hún borði í morgunmat segist almennt mikið á hlaupum og borði ekki morgunmat reglulega - sem hún sé alltaf að vinna í því að bæta. „Kaffi er víst ekki hollt eitt og sér svona til að koma líkamanum í gang. En þegar ég gef mér tíma þá hendi ég stundum í næturhafra, set í þá möndlumjólk, chiafræ og kóksflögur og grip með mér. En um helgar þá elda ég mér hafragraut. Ég elska allt sem er einfalt og því er bara tröllahafrar, chiafræ, kanill, banani og rauðrófuduft yfir!”

Rauðrófuduftið er í miklu uppáhaldi hjá Kristín og þeir sem til hennar þekkja heyra hana reglulega tala um ágæti þess. „Ég gæti drukkið rauðrófusafa og borðað rauðrófur í öll mál og ég finn að ef ég innbyrgði þær áður en ég fer út að hlaupa þá er ég orkumeiri. Enda eykur rauðrófan orku og úthald. Hún er mjög rík af andoxunarefnum, eykur blóðstreymið og veldur þar af leiðandi hraðari súrefnisflutningi! Þetta gerir það að verkum að ég get þotið hlaupastíga borgarinnar — hraðar en áður!” segir Kristín og bætir við, „rauðrófan er góð við svo mörgu, eins og fyrir þá sem vilja auka blóðflæði og úthald.”

Hún segist alla jafna fá sér banana fyrir hlaup og skella í sig tveimur töflum af rauðrófudufti frá Iceherbs. „Svo passa ég líka að vökva mig vel og að mig vanti ekki nein steinefni í kroppinn.” Kristín segir mataræði sitt almennt fremur óreiðukennt. „Ég reyni samt að borða mat  í hollari kantinum en er þessi klassíska útivinnandi móðir sem hendi í hakk og spagettí á hlaupum þá viku sem bornin eru hjá mér. Hina vikuna þá borða ég aðal máltíðina mína í hádeginu – þá helst fisk eða kjúklingasalat.  Ég vanda mig alltaf að drekka vatn og sagði skilið við sykraða gosdrykki fyrir þremur árum — sem var agalega frelsandi atriði.”

Kristín hefur þegar hlaupið tæpa 80 kílómetra þannig að hún hefur fram á laugardag til að klára. Hún segist ætla að klára með pompi  og prakt en dætur hennar ætli að hlaupa með henni síðasta spölinn sem sé að mörgu leiti táknrænt. „Það getur engin staðið í lappirnar ef hann á ekki her af fólki í kringum sig sem sýnir stuðning og hjálpar manni að taka skrefin ef manni langar að gefast upp,” segir hún en söfnunin gengur vel og búið er að safna vel yfir hálfa milljón sem hafi verið markmiðið í upphafi. „Nú er bara allt sjúklegur plús héðan í frá og reynir á hausinn að halda dampi. Viðtökurnar hafa verið frábærar og peppið úr öllum áttum. Mig langaði aðallega að vekja athygli á þessum mögnuðu einstöku börnum sem sum eiga foreldra sem berjast í hverju skrefi! Í kringum mig hefur allavega skapast góð umræða og vonandi nær hún eitthvað lengra en bara þangað.”


Þrátt fyrir risjótta tíð lætur Kristín ekki veðrið stöðva sig. „Veðrið er alltaf verra inni en það er úti. Þetta segir hjólaþjálfarinn minn alltaf. Svo ég hef einsett mér það að láta veðrið ekki stoppa mig. Ég fer þá bara styttra og það er bara áskorun að berjast við vindinn, snjóinn eða rigninguna. Reyndar er ég þannig að ég læt fátt stoppa mig ef ég hef tekið ákvörðun um að koma einhverju í verk. Það hefur hjálpað mér mikið síðustu ár að sjá að enginn er ósigrandi og ekkert óyfirstíganlegt. Stundum eru hlutirnir og lífið bara drullu erfitt — en það er alltaf ljós handan við hornið. Þó það felist stundum í að sætta sig við að allt fer ekki eins og maður óskar sér.
Svo veðrið er hugarfar að mínu mati. Svo framarlega sem ég á ekki hættu á að fjúka — þá fer ég út.”

Hægt er að heita á Kristínu HÉR.

Grauturinn góði með rauðrófuduftinu.
Grauturinn góði með rauðrófuduftinu. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert